Hjólaborgin Reykjavík

Borgarstjórn samþykkti samhljóða í vikunni hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík, sem ber yfirskriftina Hjólaborgin Reykjavík. Markmið skýrslunnar er að gera Reykjavík að framúrskarandi hjólaborg, þar sem fólki verður gert kleift að ferðast um borgina á hjóli á öruggan og einfaldan hátt. Þúsundir Reykvíkinga hjóla nú þegar um borgina á hverjum degi, þrátt fyrir að aðstæður séu ekki eins og best verður á kosið.

Reykjavík hefur að mínu mati margt til að bera til þess að verða góð hjólaborg. Borgin er ekki mjög þétt, sem gefur svigrúm til þess að koma upp hjólastígum, nokkuð sem gamlir miðbæir eiga víða í erfiðleikum með. Borgin er ekki mjög hæðótt, sérstaklega ekki nesið sjálft sem borgin stendur að mestu á. Þá hentar veðurfar hérna betur en margan grunar til hjólreiða. Hér verður til dæmis ekki jafn kalt og víða á meginlandi Evrópu og Norður-Ameríku, og raunar ekki jafn heitt heldur. Hvorttveggja er vont fyrir þá sem nota hjólið sem samgöngutæki til og frá vinnu.

Ávinningur borgarinnar af því að fleiri hjóli er augljós. Borg með ferðamynstur eins og Reykjavík er mjög dýr í rekstri. Hér aka langflestir einir í bílum sínum á leið til og frá vinnu, sem kostar borgina gríðarlega fjármuni í byggingu og rekstri samgöngumannvirkja. Ef aðeins 10% ferða flyttust yfir á reiðhjól, myndi draga verulega úr þessum útgjöldum. Mengun myndi að sama skapi minnka, en rannsóknir sýna að mengun í þéttbýli á Íslandi er meiri en t.d. á Írlandi, Noregi og Svíþjóð. Mestur yrði þó ávinningurinn sennilega fyrir heimilin í borginni. Með því að gera fólki kleift að fara ferða sinna á hjóli, er fólki boðið upp á hagkvæmari rekstur heimilsins. Ferðir eru næst stærsti útgjaldaliður heimilanna, stærri en matarkarfan.

Hjólreiðastígar um borgina gera fólk kleift að lækka þennan kostnað og ferðast fyrir eigin afli. Þetta kann að vera ástæða þess að í nýlegri könnun sem vitnað er í í skýrslunni segja 36% aðspurðra að aukið fé í lagningu göngu og hjólastíga sé mikilvægasta samgöngumálið.

Í Hjólaborginni Reykjavík eru einnig settar fram niðurstöður ýmissa rannsókna sem gerðar hafa verið á hagkvæmni hjólreiða. Tekin eru dæmi af því hvað myndi sparast ef 10% bílferða færðust yfir á reiðhjól. Það myndi auðvitað létta verulega á gatnakerfi borgarinnar þannig að þeir sem áfram vilja aka bílum kæmust greiðar leiðar sinnar. Eknar ferðir í borginni myndu styttast um 50 þúsund km á dag, samkvæmt þeim rannsóknum sem stuðst er við. Það myndi hafa margvísleg jákvæð áhrif, svo sem minni kostnað í viðhald, minni tíma eytt í umferðatafir og betri heilsu þeirra 10% sem  myndu færa sig yfir á hjólin, og reyndar annarra borgarbúa líka vegna minni mengunar.

Áætlunin er vitaskuld ekki formlegt skipulag. Í henni eru hinsvegar tillögur að úrbótum fyrir hjólreiðafólk, og sumar þeirra eru settar fram með myndrænum hætti eins og sést á myndinni hér til hliðar. Á henni er sýnt hvernig hjólastígurinn milli Laugadals og miðbæjarins getur litið út. Stígurinn myndi liggja frá Laugadal eftir Sundlaugavegi, yfir Kringlumýrarbrautina, eftir Borgartúninu, yfir Snorrabraut og eftir Skúlagötunni niður í miðbæ. Þúsundir Reykvíkinga vinna við þessa leið og geta nýtt sér hjólastíginn til að komast í Laugar eða miðborgina og hraðan og öruggan hátt.