Snjór á hjólum – MYNDIR!

Veðrið í Reykjavík er auðvitað ekki eins og best yrði á kosið. Hinsvegar finnst mér við stundum mála það dekkri litum en þörf er á. Þegar ég reyni að hvetja fólk í kringum mig til að hjóla, fæ ég iðulega í hausinn einhver komment um að veðrið hér sé svo slæmt að ógerningur sé að hjóla. Sem hjólreiðamaður veit ég að þetta er rangt, en það getur verið erfitt að sannfæra fólk um hið gagnstæða.

Mér finnst því alltaf ágætt að minna á að tvær af mestu hjólaborgum heims, Kaupmannahöfn og Amsterdam, eru hreint engar veðurparadísir (er orðið paradís til í fleirtölu?). Þessar myndir voru teknar í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum dögum.


Þessi mynd er tekin í Nörreport, þar sem fjölmargir geyma hjólin sín.


Hér er verið að ryðja snjó af hjólastíg, og ég vek athygli á því að það er ekki búið að ryðja götuna.


Kaupmannahafnarbúar eru ekki lausir svið slabbið frekar en við. Flestir þeirra eru hinsvegar á hjólum með betri brettum og hlífum en við. Í Reykjavík eru flestir á fjallahjólum, sem sum hver eru ekki einu sinni með brettum.

Ég er svosem ekki að birta þessar myndir til að sanna neitt. Auðvitað er betra veður í Kaupmannahöfn en Reykjavík í það heila tekið. En veturnir hér eru mildir, eins og við lærðum í grunnskóla, og allir þeir sem raunverulega hafa prófað að hjóla í Reykjavík vita að veður er ekki sá þröskuldur sem þeir sem ekki hjóla, segja. Reyndar vita það allir sem hjólað hafa í útlöndum, að heitt og rakt loft er eitthvað versta hjólaveður sem hægt er að lenda í, enda mæta þá allir sveittir í vinnuna. Ég held að það sé ekki tilviljun að Kaupmannahöfn og Amsterdam skuli vera svona miklar hjólaborgir, báðar fremur norðarlega.

Veðrinu breytum við auðvitað ekki, en það stendur upp á okkur í borgarstjórn Reykjavíkur að bæta aðrar aðstæður fyrir þá sem hjóla, þannig að það sé einfaldara og öruggara en nú er.