Viltu 20% kauphækkun?

Meðalfjölskylda á Íslandi eyddi á árunum 2005-2007 rúmlega 15% heimilistekna sinna í kaup og rekstur ökutækja. Þetta kom fram í skýrslu frá Hagstofunni í desember. Það hlutfall hefur nánast örugglega hækkað verulega, enda kostar rekstur bíls miklu meira nú en þá (bensínhækkanir, afborgarnir af lánum …) og tekjur heimilanna hafa dregist saman. Varlega áætlað má því búast við að kaup og rekstur ökutækja séu nú að minnsta kosti 20% heimilisútgjalda.

Ég veit um nokkur heimili í borginni sem hafa brugðist við þessu með afar einföldum hætti: Selt bílinn sinn eða tekið hann af númerum og byrjað að ferðast ókeypis. Vitanlega er þetta talsverð breyting á lífsstíl, en sú breyting er að mestu til góðs. Fólk hjólar eða gengur til vinnu, kemur sér við það í betra form og getur sparað sér kostnað við ýmiskonar líkamsrækt. Ný útgjöld koma auðvitað til sögunnar, svo sem strætóferðir við ákveðin tækifæri eða leigubílar. En sá kostnaður er dropi í hafið á móti bílnum.

Reykjavíkurborg á að skipuleggja borgina þannig að sem flestir eigi þennan valkost. Sem flestir búi við helstu æðar almenningssamgangna og séu ekki meira en korter að hjóla til vinnu. Á korterskortinu sem umhverfis- og samgöngusvið hefur gert má sjá hversu langt menn komast með því að hjóla rólega í 15 mínútur.

Tugþúsundir Reykvíkinga geta komist til vinnu sinnar á innan við stundarfjórðungi og hækkað í leiðinni kaupmátt heimilisins um 20% og komið sér í form! Þessum Reykvíkingum eigum við að fjölga með því að þétta byggðina.