Tvær spurningar

Vafalaust eru til einföld svör við þessum spurningum. Ég hef bara ekki heyrt þau.

1. Það er búið að klifa á því að Ísland hafi ekki ráðið við svona stórt bankakerfi af því við séum með svo lítinn og veikan gjaldmiðil. Sviss er líka með bankakerfi sem er miklu stærra en ríkið og þeir eru líka með eigin gjaldmiðil sem er svissneski frankinn. Af hverju er þeirra bankakerfi ekki of stórt fyrir ríkið og gjaldmiðilinn? Er það hefðin þar sem gerir gæfumuninn eða eru þeir með öðruvísi reglur en við?

2. Það er líka sagt að Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig í að „halda í við“ bankana. Það kann vel vera rétt og enginn virðist saklaus af ýmiskonar mistökum í þessu. En ef bankarnir sáu í hvað stefndi, af hverju fluttu þeir þá starfsemi sína ekki annað, frá þessum ómögulegu stjórnvöldum? Var það þjóðernisást sem réð því að þeir ákváðu að vera áfram hér í ómögulegu umhverfi? Nú má ekki skilja þessi orð mín þannig að ég hafi viljað þá úr landi einsog Ögmundur Jónasson, þvert á móti. Ég vildi einmitt hafa þá alla hér og að stjórnvöld myndu móta umhverfi sem gerði þeim það auðvelt. En eigendur bankanna hljóta að hafa skoðað þann möguleika ef þeir töldu einsýnt að stjórnvöld hérna myndu setja bankana á hausinn með stefnu sinni, eins og nú er látið að liggja.