Prófkjörið 2005

Prófkjörið sem ég tók þátt í árið 2005 er það stærsta sem haldið hefur verið á Íslandi. Þegar það var haldið, voru forsvarsmenn í Sjálfstæðisflokknum ákaflega ánægðir með þá athygli sem flokkurinn fékk og hrósuðu mér bæði opinberlega og í einkasamtölum fyrir framgönguna. Á þeim tíma þótti gott að fá nýtt fólk til liðs við flokkinn, en mörg hundruð manns skráðu sig í flokkinn vegna þessa prófkjörs. Sömuleiðis þótti það góður upptaktur fyrir kosningarnar að Sjálfstæðisflokkurinn fengi svo mikla athygli og auglýsingu, og á meðan prófkjörinu stóð mældist flokkurinn í Reykjavík með langt yfir 50% í könnunum. Á landsfundi sem haldinn var í miðri prófkjörsbaráttunni, þegar auglýsingaflóðið stóð sem hæst, var mikil ánægja með þetta stóra prófkjör sem 12.500 Reykvíkingar tóku þátt í. Svei mér þá ef sjálfstæðismenn hældust ekki svolítið um af ‘glæsilegu prófkjöri’ og báru hróðugir saman við prófkjör hinna flokkanna.

Nú bregður svo við að landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktar að þetta stóra prófkjör hafi ekki verið gott. Önnur ’stór og glæsileg’ prófkjör Sjálfstæðisflokksins, sem við vorum öll stolt af, fá sömu einkunn. Raunar hafi þau verið svo slæm að þeir sem kepptu um efstu sætin, og ráku því stærstu og dýrustu baráttuna, eigi að hugsa sinn gang. Engar áhyggjur eru viðraðar í þessari ályktun um að prófkjörin hafi skaðað kjörna fulltrúa í störfum sínum, eða að þeir sem lögðu framboðunum lið hafi reynt eða getað haft áhrif á störf okkar sem borgarfulltrúar eða þingmenn.

Á meðan á prófkjörinu stóð árið 2005 tók ég skýrt fram, að sjálfur hefði ég enga burði til að fjármagna svo stórt framboð, heldur treysti ég algerlega á framlög fólks og fyrirtækja sem vildu styðja mig. Í nóvember síðastliðnum skilaði ég uppgjöri um þetta 5 ára gamla prófkjör til Ríkisendurskoðanda, á tilsettum tíma. Þar að auki hef ég sagt frá hverjum einasta af þeim 7 aðilum sem styrktu mig um 500 þúsund eða meira.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík héldu prófkjör í janúar á þessu ári, eftir að Ríkisendurskoðun hafði birt uppgjör okkar, þar sem tæplega 3000 manns kusu mig í það sæti sem ég sit í. Ég fór þá leið í prófkjörinu að halda málefnafundi um mína sýn á borgarmálin. Með því tókst mér að reka ódýra en málefnalega kosningabaráttu, en nýjar reglur höfðu verið settar um að heildarkostnaður mætti ekki fara yfir 1,5 milljónir. Á grundvelli þessara hugmynda minna var ég valinn á listann. Það var stuðningur sem skipti mig miklu máli.

Sumir kjósendur flokksins sendu skilaboð á atkvæðaseðlum sínum í borgarstjórnarkosningunum í vor með því að strika yfir nafn mitt, eða færa mig til á listanum. Þær breytingar voru þó langt frá því að hafa einhver formleg áhrif. Ég gef slíkum skilaboðum góðan gaum og reyni að bæta það sem betur má fara í störfum mínum. Menn hafa margar og misjafnar ástæður fyrir skoðunum sínum á mér, sem ég geri engar athugasemdir við. Mér hefur þó aldrei þótt það galli við stjórnmálamenn að þeir séu umdeildir, og hópur fólks hafi horn í síðu þeirra. Venjulega er það merki um að þeir séu að gera eitthvað af viti.

Hér eftir sem hingað til mun ég taka mark á þeim viðbrögðum sem ég fæ. Þau jákvæðu viðbrögð sem ég hef fengið við störfum mínum í þágu borgarbúa, skipta mig miklu máli. Áskorunin á landsfundinum um helgina er ekki alslæm. Þar er skorað á forystu flokksins „þar með talda þingmenn flokksins og forystusveit í sveitarstjórnum, að íhuga vel stöðu sína með tilliti til fylgis flokksins í framtíðinni. Það er alkunna í þjóðfélaginu að þeir sem hafa þegið há fjárframlög frá félögum, jafnvel í almannaeigu og/eða fengið óeðlilega lánafyrirgreiðslu á undanförnum árum, umfram það sem almenningur hefur átt kost á, ættu að sýna ábyrgð sína með því að víkja úr þeim störfum og embættum sem viðkomandi hafa verið kosin til. Þetta á einnig við um þá sem hafa brotið af sér á einhvern hátt eða sýnt afskiptaleysi, hvort sem það er af þekkingarskorti eða öðrum orsökum.“

Engar lánafyrirgreiðslur hef ég fengið, hvorki kúlulán né önnur óvenjuleg lán. Mín einu lán eru gömul lán sem við hjónin tókum fyrir 100 fm íbúð okkar sem við keyptum árið 2002 og búum í, og bílnum okkar. Hvergi hef ég setið í stjórnum fyrirtækja (annarra en byggðarsamlaga Reykjavíkur), ég á engin hlutabréf og hvergi hef ég verið sagður hafa sýnt afskiptaleysi, hvað þá afbrot í aðdraganda eða eftirleik hrunsins.

Ég fékk vissulega fjárframlög frá fyrirtækjum til að reka prófkjörið 2005, eins og tugir eða hundruð manna og kvenna sem tóku þátt í stjórnmálum þá. Einstakir styrkir til mín voru hvorki í hópi þeirra hæstu, né voru háir styrkir mjög margir. Það er hinsvegar sjálfsagt að allir þeir sem hafa tekið þátt í stjórnmálum horfi inn á við og skoði hvort samviska þeirra sé hrein. Sé svo, eiga þeir að reyna að rækja hlutverk sitt sem kjörnir fulltrúar fólksins sem allra best. Sjálfur ætla ég að nýta öll viðbrögð við störfum mínum, jákvæð sem neikvæð, til að styrkja mig í mínu hjartans máli, sem er að gera Reykjavík að betri borg. Til þess hef ég nú verið kosinn í tvígang, og í tveimur prófkjörum hafa þúsundir Reykvíkinga raðað mér ofarlega á lista til að vinna að málum sem þeir treysta mér fyrir. Því trausti ætla ég ekki að bregðast.