Þó líði ár …

Í dag er nákvæmlega ár síðan 100 daga meirihlutinn tók við völdum í Reykjavík. Einhverra hluta vegna var lítið um mótmæli vegna „ruglsins í Reykjavík“ á pöllunum þá. Kannski ungir jafnaðarmenn hafi bara verið uppteknir við annað.

100 daga meirihlutinn var aldrei góður. Það voru mikil mistök hjá þeim að setja ekki einu sinni niður grófa málefnaskrá, þannig að fólk vissi hvert þau ætluðu sér. Ástæðan var einfaldlega sú að þau vissu ekki hvert þau ætluðu sér. Ekki saman að minnsta kosti. Dagur Eggertsson vissi hvert hann vildi fara og Svandís Svavarsdóttir eygir líka sitt draumaland við sjóndeildarhring. Leiðir þeirra liggja sumstaðar saman, en annarsstaðar ekki. Björn Ingi Hrafnsson átti ekki mikla samleið með þeim að mínu mati og eina raunhæfa skýringin á því af hverju hann sveik okkur er sú að hann hélt að við værum að fara að svíkja hann. Sem við vorum ekki að fara að gera. Björn Ingi er hinsvegar lipur í samskiptum og gekk ágætlega að vinna með þeim Degi og Svandísi, eftir því sem ég kemst næst. Það er líka háttur framsóknarmanna (eins og annarra kamelljóna) að geta skipt um lit eftir umhverfinu. En þrjú hjól dugðu ekki undir þennan bíl og Ólafur F. Magnússon var fjórða hjólið. Það snérist aldrei í takt við neitt hinna þriggja. Það snérist sennilega mest um sjálft sig. Og flugvöllinn.

Ástæða þess að ég skrifa um þetta núna ári síðar, er sú að í þeirri hörmulegu bankakreppu sem við erum komin í get ég ekki annað en hrósað happi yfir því að borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins skuli hafa tekist að stöðva samruna REI og Geysis Green Energy, sem var og er í eigu Glitnis. Það er raunar með ólíkindum hversu margir töldu nauðsynlegt að keyra þennan hluta Orkuveitunnar í „útrásina“ og talað var um að með því að stöðva þá ævintýramennsku værum við borgarfulltrúarnir að snuða borgarbúa um „trilljarða króna“, svo vísað sé til eins þeirra sem lét okkur hafa það óþvegið. Þeir eru fáir núna sem myndu halda því fram að við hefðum átt að selja REI inn í þetta feigðarflan.

Margt hefur gerst á þessu eina ári. Eins óþolandi og lætin í borgarstjórn hafa verið fyrir alla, hafa atburðir síðustu vikna sett alla hluti í nýtt samhengi. Stemningin í þjóðfélaginu nú og fyrir ári er jafn ólík og dagur og nótt. Vonandi verða næstu 365 dagar betri fyrir borgarstjórn og fyrir landið allt.