Hverjir borga fyrir ókeypis bílastæði?

Góður maður benti mér á grein í New York Times, sem birtist um helgina. Greinina skrifar prófessor í hagfræði í George Mason háskólanum í Bandaríkjunum, Tyler Cowen. Hann hefur skrifað mikið um hagfræði hins daglega lífs og hefur velt fyrir sér matarmenningu, listum og frægð í tengslum við hagfræði. Áhugaverður maður.

Í greininni í Times um helgina fjallar Cowen um bílastæði. Hann vísar í þekkta bók eftir Donald C. Shoup sem heitir „Hin dýru ókeypis bílastæði“. Hann gerir að umtalsefni hina stórfelldu niðurgreiðslu sem bílar fá í samfélagi okkar, en talið er að 99% af öllum ferðum Bandaríkjamanna endi í ókeypis bílastæði. Cowen getur kallast frjálshyggjumaður, en hefur verið duglegur við að stugga við heilögum kúm, eins og ódýr eða ókeypis bílastæði hafa verið í sumum kreðsum.

Í Reykjavík er mikill fjöldi ókeypis bílastæða, en talið er að hver bíll í Reykjavík eigi í raun 3 stæði; við heimilið, við vinnustaðin og við verslun. Aðeins örfá stæði í borginni eru gjaldskyld, og þau eru nær öll í miðborginni. Gjaldið fyrir að leggja í miðborg Reykjavíkur er miklu lægra en borgunum í kringum okkur. Raunar hef ég skoðað mér til gamans hvað bílastæði kosta í þeim borgum sem ég hef heimsótt á undanförnum árum, og held að bílastæði séu hvergi jafn ódýr og í Reykjavík. Rétt eins og Cowen og Shoup benda á, eru gerð og rekstur ódýrra og ókeypis bílastæða ákaflega einkennileg meðferð opinbers fjár. Víða í borginni eru einstaklingar með bílastæði inni á lóðum sínum, sem þeir þurfa sjálfir að halda við og reka. Í næsta húsi við geta hisvegar bílastæðin verið úti í götu, rekin og haldið við af borginni, notendanum að kostnaðarlausu.

Greinin er hér: http://www.nytimes.com/2010/08/15/business/economy/15view.html?_r=3&scp=1&sq=tyler+cowen&st=cse