Vesturbæingar athugið!

Í dag fimmtudaginn 2. september, mun hverfisráð Vesturbæjar halda fund um opnu svæðin á Högunum. Fundurinn fer þannig fram að hverfisráðið mun ganga á milli skilgreindra leiksvæða samkvæmt auglýstri dagskrá, og hitta íbúa í nærliggjandi húsum sem vafalaust hafa einhverjar ábendingar og hugmyndir um notkun þessara svæða.

Mynd af svæðinu frá 1970

Ólafur Mathiesen arkitekt hjá Glámu-Kím mun ganga með okkur en hann hefur ásamt félögum sínum á Glámu-Kím kynnt sér sögu svæðisins, með sérstakri áherslu á leiksvæði barna. Hann er líka formaður Gríms, vináttufélags Lynghagaróló. Ólafur getur frætt áhugasama um það hvernig samstarfið við borgina hefur gengið fyrir sig, og hver fyrstu skrefin ættu að vera ef íbúar nærliggjandi húsa vilja taka leiksvæði „í fóstur“.

Leikvellirnir á Högunum eru merkilegir. Hverfið er eitt það fyrsta sem byggist upp sem fjölskylduhverfi (það voru t.d. engin leiksvæði hönnuð inn í Melana sem byggðust áratug fyrr, eða svo). Melarnir og Hagarnir (austan Hofsvallagötu) eru mjög þéttbýlir á reykvískan mælikvarða (tæplega 7000 manns á 60 hekturum), og fleiri eru um hvern leikvöll en í nýrri hverfum borgarinnar. Það þarf alls ekki að vera ókostur, og verkefni íbúanna í nágrenninu og hverfisráðsins er að tryggja að þessi svæði nýtist sem best.

Við höfum kaffi með í för, þannig að þeir sem hafa bara áhuga á að hlusta og fá sér kaffisopa í góðum félagsskap eru að sjálfsögðu velkomnir. Opnu svæðin sem við stöldrum við á, eru merkt með bláu á myndinni.

Dagskráin er sem hér segir:

Kl. 16:00 Fundurinn hefst á Melhagaróló (einnig kallaður Aparóló eða
Kókakóla-róló), milli Melhaga og Neshaga (efst á kortinu)
Kl. 16:20 Fundi framhaldið á róló fyrir aftan Vesturgarð við Hjarðarhaga
Kl. 16:40 Fundi framhaldið á Kvisthagaróló, fyrir aftan Kvisthaga 7
Kl. 17:00 Fundi framhaldið á Tómasarhagaróló, fyrir aftan Tómasarhaga 51 og 53
Kl. 17:20 Fundi framhaldið á Dunhagaróló (milli Tómasarhaga, Hjarðarhaga og Dunhaga)
Kl. 17:40 Fundi framhaldið á Lynghagaróló (Milli Lynghaga og Tómasarhaga)
Kl. 18:00 Fundi slitið

Ég geri nú ekki ráð fyrir því að stórar ákvarðanir verði teknar á þessum göngu-fundi, en þetta er tækifæri fyrir hverfisráðið til að heyra sjónarmið íbúanna sem fylgjast með þessum svæðum á hverjum degi. Markmið okkar sem höfum verið kosin í hverfisráðið er að fundir okkar séu opnir og það sé auðvelt að nálgast ráðið og koma með uppbyggilegar hugmyndir og ábendingar.

Hlakka til að sjá sem flesta í dag kl. 16:00.