Ekki frítt fyrir alla í strætó

Það er engin lausn að gefa öllum frítt í strætó, eins og fulltrúi Frjálslynda flokksins í borgarstjórn er enn einu sinni að leggja til. Það geta verið rök fyrir því að bjóða ákveðnum hópum upp á mikla afslætti eða láta kort í strætó fylgja innritunargjöldum í skóla, eins og gert hefur verið að undanförnu með Nemakortunum. Þau munu vonandi þróast á þann hátt að skólarnir sjálfir komi í ríkari mæli að greiðslu þeirra korta, enda græða þeir mest á þeim sjálfir. Eftirspurn eftir bílastæðum minnkar og skólarnir nýta þau í uppbyggingasvæði, eins og gert var á háskólatorginu í H.Í. Skólarnir hafa smám saman verið að ganga á bílastæði sín til að byggja upp nýtt húsnæði og vilja eðlilega koma til móts við nemendur sína og hjálpa þeim að komst til og frá skóla á hagkvæman og umhverfisvænan hátt.

Nemakortin slógu í gegn og hafa reynst mikilvæg í þeirri stefnu borgaryfirvalda að auka hlut almenningssamgangna í umferðinni. Ef Reykvíkingum tekst að breyta samgöngumynstrinu á þann hátt að fjöldi ferða með strætó aukist verulega á næstu árum, verður sparnaðurinn fljótur að koma í ljós í minna viðhaldi og uppbyggingu umferðamannvirkja. En til þess þurfa almenningssamgöngur að vera raunhæfur og góður kostur, eins og unnið hefur verið markvisst að allt þetta kjörtímabil. Það verður ekki gert með því að gefa öllum frítt í strætó.