Nefndi einhver þéttingu byggðar?

Ljósmyndarinn Michael Wolf er einn af fjölmörgum listamönnum sem hefur borgina að viðfangsefni. Tvö verkefni hans hafa vakið sérstaka athygli mína að undanförnu, sem bæði tengjast háhýsum. Fyrra verkefnið heitir The architecture of density eða Þéttbýlis-arkitektúr, en þar tók Wolf myndir af fjölbýlishúsum í Hong Kong. Í stað þess að láta turnana bera við himinn, má segja að hann fletji myndina út eða taki dýptina úr henni, með því að láta turnana hvergi snerta himinn eða jörð.

Ótrúlega fallegar myndir og þótt það sé ekki líflegt á þeim, vekur það mann til umhugsunar hversu mikill fjöldi hlýtur að búa á því svæði sem hér er fest á filmu. En inn á milli má greina merki um líf, þvott úti á snúru eða önnur merki um að í mauraþúfunni eru milljón ólíkar sögur af fólki sem er örugglega í sínu basli, eins og við hérna heima.

Hitt verkefnið sem Wolf hefur verið að sýna heitir Transparent City, Gegnsæ borg. Ég sá einmitt þá ljósmyndabók á útsölu í Eymundssyni í gær. Þetta er fyrsta serían sem Wolf gerir um bandaríska borg, en hann hefur árum saman unnið í Asíu. Transparent City gerði hann hinsvegar í Chicago, fæðingarborg háhýsanna. Mér finnst ótrúlega heillandi að horfa á þessar myndir, sem ættu kannski að virka kuldalegar, en gera það ekki á mig.

Wolf hefur síðan tekið afleggjara af þessu verkefni, og byrjað að súmma inn á myndirnar. Þá verður lífið inni í húsunum meira áberandi, og aðalleikararnir vita ekkert að við erum að fylgjast með þeim. Ég veit nú ekki alveg hvernig þetta myndi ríma við lög um persónuvernd hérna heima. Myndirnar sýna fólk umvafið öryggi heimilisins, en myndirnar eru orðnar óskýrar þegar Wolf er búinn að súmma svona mikið inn. Hann beitir nefnilega þeirri aðferð að taka bara víðu myndina af byggingunum, en eftirá fer hann að skoða hvað sést á þeim. Konan á myndinni hér að neðan býr t.d. í einhverri af upplýstu íbúðunum á myndinni hér að ofan.

En sumir taka greinilega eftir ljósmyndaranum og senda honum skýr skilaboð, þótt ljósmyndarinn taki ekki eftir þeim fyrr en hann byrjar að skoða myndirnar gaumgæfilega í tölvunni heima hjá sér löngu síðar!

Meiri upplýsingar um Wolf er að finna hér.

Góða helgi öllsömul!