Borgartré

Ég sá í blöðunum í morgun að fólk er að velja tré ársins útum allt land. Þegar ég gúglaði sá ég að Skógræktarfélag ríkisins hefur tvisvar sæmt reykvískt tré þessum titli: Álminn á Túngötu 6 árið 1999 (hann sést varla lengur fyrir hótelinu á horni Túngötu og Aðalstrætis, en stendur glæsilegur þar fyrir aftan) og Garðahlyninn á horni Suðurgötu og Vonarstrætis árið 1994(myndin er fengin að láni hér):

Skógræktarfélag Reykjavíkur byrjaði nú á menningarnótt að velja Borgartré og fyrsta tréð sem hlaut þennan heiður var Silfurreynirinn í Fógetagarðinum við Aðalstræti, þar sem einu sinni var kirkjugarður.

Þarna sést Silfurreynirinn ágætlega, en lítið er eftir af trjánum sem standa í kringum hann. Myndin er tekin uppúr 1960, en fyrir árið 1967, því þá brann rauða húsið, Aðalstræti 9. Hér er eldri mynd af þessu horni:

Silfurreynirinn er sennilega einhverstaðar þarna í garðinum fyrir framan Brauns verslun, en um þetta tré segir á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur:

„Georg Schierbeck landlæknir gróðursetti tréð 1884 , en hann fékk til umráða hinn gamla kirkjugarð Reykvíkinga sem þarna hafði staðið í 800 ár og hóf tilraunaræktun á trjám, matjurtum og blómum. Garðurinn varð fljótlega fyrirmynd landsmanna í ræktun og telst Schierbeck einn af frumkvöðlum þjóðarinnar í garðyrkju og skógrækt.

Silfurreynirinn er eina tréð í garðinum sem eftir er frá tíð Schierbecks og jafnframt elsta tré borgarinnar. Það er lifandi minnismerki um þennan merka frumkvöðul og þann tíma þegar garðyrkja og skógrækt voru að komast á legg hér á landi. Samkvæmt mælingu er hann nú 10,19 m á hæð.

Silfurreynir á uppruna sinn að rekja til Suður-Svíþjóðar en er ræktaður víða um heim og þykir bæði harðgerður og henta vel við umferðaræðar vegna þess hve loftmengun hefur lítil áhrif á hann. Þetta er krónumikið og svipmikið tré, náskylt reyniviðnum sem lengi hefur vaxið hér á landi.

Silfurreynirinn getur náð 200 ára aldri og á því umrætt tré í Víkurgarði að öllum líkindum eftir að lifa fram undir næstu aldamót.“

Á myndinni hérna að ofan sést tréð vel, fyrir aftan Skúla Magnússon. Hinn merki miðbæjarmarkaður er þar fyrir aftan, þar sem áður stóð Brauns verslunin og þar á undan Bergmannsstofa, sem svo var kölluð.

Reykjavíkurborg í samvinnu við skógræktarfélögin gróðursetur tugi þúsunda trjáplantna á hverju ári. Að undanförnu hefur miklu verið plantað í Græna trefilinn, sem aðallega liggur utan og austan við borgina. Ég held að tími sé kominn til að hefja umfangsmikla skógrækt inni í borginni. „Reforestation“, eins og það hefur verið kallað. Þannig fá komandi kynslóðir fleiri tré eins og álminn og silfurreyninn við Aðalstræti til að leika sér í eftir 100 ár, eða dást að allan ársins hring. Allir sem gengið hafa um skógi vaxna garða, til dæmis Hólavallakirkjugarð við Suðurgötu, vita hvað trén hafa góð áhrif á bæða ytra veðrið og veðurfar sálarinnar. Út um alla borg eru opin svæði sem myndu bara batna við það að fá fleiri glæsileg tré. En það tekur þau tugi ára að verða glæsileg, þannig að við skulum byrja strax.