Nágrannaerjur um tré

Lesandi síðunnar benti mér á þessa frétt af The Guardian í kjölfar skrifa minna um borgartré. Hér er um að ræða ansi þrjóskan mann í Plymouth, sem hefur staðið deilum við nágranna sína árum saman. Nú er það þetta tré sem veldur deilum, kannski engin furða:

Nágrannaerjur vegna trjáa koma raunar mjög reglulega upp í Reykjavík líka, og eru jafnan mjög erfiðar. Hvor á réttinn: Sá sem gróðursetti tré í garðinum sínum fyrir 20 árum, eða granni hans sem nú sér ekki sólina fyrir trénu (í bókstaflegri merkingu).

Sigurður Helgi Guðjónsson formaður Húseigendafélagsins sagði í viðtali við Pressuna í sumar að tré valdi oft nágrannaerjum:

„Tilfinningar eru oft bundnar við aspir og þær gera fólk einna vitlausast og svipt það skynseminni. Aspamál hafa til dæmis verið mjög algeng í sumar, af þeim stafar bæði skuggi og bílarisp. Fólk elskar aspirnar og elskar þær jafnvel meira en maka sína og börn. Þær leysa þannig úr læðingi miklar tilfinningar.“

Borgin verður auðvitað að fara varlega þegar hún plantar trjám á opin svæði, og tryggja að þau gangi ekki á rétt nágranna sem hafa fjárfest í húseignum, meðal annars vegna sólríkra garða.