Frábært myndband

Hér er myndband sem nokkrir Bandaríkjamenn gerðu um Kaupmannahöfn þegar þeir voru á ráðstefnu um hjólreiðar þar í sumar. Ég veit að einhverjir íslenskir hjólreiðamenn voru á þessari ráðstefnu, en ég held að enginn hafi farið frá Reykjavíkurborg. Það er eiginlega fyndið hvað kanarnir eru stóreygir yfir því hvað Kaupmannahafnarbúar hjóla mikið og hvað þetta er eðlilegt. Enda er það víða þannig í bandarískum borgum að þeir sem hjóla eru örfáir furðufuglar, búnir út í spandex og hjálma og eru Hjólreiðamenn með stóru H-i. Með slíkri nálgun verða borgirnar aldrei góðar hjólaborgir, að mínu mati. Það er einsog að krefjast þess að allir sem ganga í skólann eða vinnuna skuli vera í sérstökum búningum, og helst með hjálm. Þá myndu færri ganga. Hjólreiðar eru góður kostur sem á að standa fólki til boða á einfaldan og öruggan hátt. Til þess þarf að fjölga hjólreiðastígum og bæta aðstöðuna. Þá munu fleiri hjóla, færri keyra og borgin verða skemmtilegri og ekki síst ódýrari. Bæði fyrir einstaklingana og borgarsjóð. En hér er myndbandið, sem er líka mjög fróðlegt fyrir þá sem hafa áhuga á hönnun borgarumhverfis.