Græn samgöngustefna

Það er mikið fagnaðarefni að borgarstjórn skuli hafa samþykkt að vinna Græna samgöngustefnu fyrir borgina. Við hétum því í Grænu skrefunum að þetta yrði gert, undir yfirskriftinni „Reykjavíkurborg til fyrirmyndar.“

Samgöngustefna er nokkuð sem hefur ekki verið mikið í umræðunni hér, en víða í evrópu er það bundið í lög að fyrirtæki skuli hafa slíka stefnu. Markmiðið er að fyrirtæki og stofnanir vinni markvisst að því að starfsmenn og viðskiptavinir ferðist á eins umhverfisvænan hátt og hægt er. Þetta er hægt að gera með því að tryggja góða aðstöðu fyrir þá sem koma með strætó, eða þurfa að bíða eftir honum í nágrenninu. Bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk með góðum hjólreiðastöndum eða jafnvel sturtum fyrir starfsfólk. Ýmis fyrirtæki hafa farið þá leið að borga árskort í strætó fyrir starfsfólk sitt, en hafa jafnframt nokkra umhverfisvæna bíla á vinnustaðnum til þess að menn geti erindast eitthvað í vinnutímanum, en notað svo almenningssamgöngur til að komast aftur heim.

Útfærslurnar eru óteljandi, en þær eiga það allar sameiginlegt að vera góðar fyrir umhverfið og borgina og það sem skiptir ekki síður máli; þær spara fyrirtækjunum og starfsmönnunum peninga. Allir vita að Reykjavíkurborg þarf á því að halda á næstu misserum og grænar aðgerðir geta verið góðar til sparnaðar. Það er full ástæða til að óska formanni umhverfis- og samgönguráðs Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttir sérstaklega til hamingju með þetta græna skref. Örfá fyrirtæki hafa tekið upp samgöngustefnu í Reykjavík og það ber að hrósa þeim sérstaklega fyrir það. Vonandi fjölgar þeim í kjölfar Grænna ferða Reykjavíkurborgar.

Sjálfur komst ég ekki á fundinn í dag, sem mér þótti miður. Fyrir fundinn var ég búinn að mæta á 4 af 5 fundum borgarstjórnar eftir sumarfrí, en gat ekki komið í dag og kallaði inn varamann.