Tillaga verður að veruleika

Á laugardaginn var formlega tekin í notkun ný hjólavefsjá fyrir Reykjavík, http://www.hjolavefsja.is. Eins og lesendur síðunnar muna fluttum við fulltrúar D lista í umhverfis- og samgönguráði tillöguna fyrir nokkrum vikum. Hún var að lokum samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, og með góðri samvinnu okkar og meirihlutans hefur nú tekist að opna flotta hjólavefsjá. Ég skora á ykkur að prófa.

Hér fyrir neðan sýnir kortið leiðina milli Ráðhússins og Borgarhússins í Borgartúni (athugið að maður getur dregið græna og rauða merkið á upphafs og lokastaðina, þannig að maður þarf ekki að vita hvað göturnar heita):

Vefsjáin velur aðra leið en ég hjóla venjulega. Þetta er bein og greið leið, en ennþá á eftir að setja inn hæðarpunkta í landslagið, sem sýna hvað hækkunin er mikil. Hér er til dæmis farið beint upp í Skólavörðuholtið, gegnum Þingholtin, sem ég myndi nú sleppa. Sjálfur myndi ég fara Lækjargötuna og svo upp nýja hjólastíginn á Hverfisgötu, sem er bara brött fyrstu metrana. Mjög þægileg gata þegar maður er kominn framhjá Þjóðleikhúsinu.

Hjólavefsjáin stekkur ekki fullsköpuð fram, heldur er beinlínis reiknað með því að notendur séu sífellt að bæta hana. Setja inn sniðuga stíga, sem ekki eru komnir inn í kerfið og svo framvegis. Ég kann ekki nákvæmlega á tæknihliðina, en grunnurinn að þessu er svokallað OpenStreetMap, og gengur út á það að allir hjálpist að við að bæta kerfið. En Reykjavíkurborg lagði þungt lóð á vogarskálarnar með því að opna aðgang að gagnagrunni sínum í landupplýsingakerfinu. Þannig vonum við að Hjólavefsjáin verði frábært hjálpartæki fyrir alla sem vilja hjóla í borginni. Það er líka ástæða til að fagna því góða samstarfi sem við áttum við meirihlutann í Reykjavík um þessa tillögu. Aðalatriðið er að góð mál komist í gegn, og það gerist helst ef allir vinna saman.

Hér er Jón Gnarr að afhenda Björgvini Ragnarssyni frá OpenStreetMaps gögn Reykjavíkurborgar fyrir Hjólavefsjá.