Myndir! Borg!

Málþingið Myndum borg var haldið í Hafnarhúsinu í Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn. Skemmst er frá að segja að málþingið tókst framar öllum vonum. Troðfullt var í salnum, erindin frábær og mikill og góður rómur gerður að plakatinu sem góðir menn höfðu gert fyrir okkur og myndbandi sem sýnt var af uppákomunni 19. júní í sumar, þegar við ‘mynduðum borg’. Hér fyrir neðan er plakatið, sem menn geta fengið á fundum Samtaka um bíllausan lífsstíl, eða hjá mér með því að senda póst á gislimarteinn@gmail.com. Við eigum slatta af þessum plakötum og sendum okkar allra bestu þakkir til Jónsson & LeMacks sem hönnuðu það og prentsmiðjunnar Odda sem gaf okkur prentunina, enda leggur fyrirtækið mikla áherslu á umhverfismál og fékk nýverið svansvottun.

Jón Gnarr setti þingið og flutti snjallt ávarp þar sem hann sagði meðal annars frá reynslu sinni sem hjólreiðamaður. Jón hefur mikla reynslu af því að hjóla í Reykjavík, og notaði hjólið meðal annars sem samgöngutæki um langt skeið þegar hann bjó í Húsahverfinu í Grafarvogi en vann á Flókagötu. Þá leið hjólaði hann daglega og sagðist hafa orðið hissa á því hversu fljótur hann var í förum. (Við annað tilefni í samgönguviku sagði Jón einnig frá því að hjólreiðar hefðu oft verið taldar nördalegar, og hann hafi til dæmis látið Georg Bjarnfreðarson birtast á reiðhjóli í einni af Vöktunum. Jón baðst afsökunar á þeim ímyndarskaða sem hjólreiðar gætu hafa orðið fyrir vegna þessa, enda teldi hann sjálfur hjólreiðar mjög töff.)

Svandís Svavarsdóttir hélt kraftmikið erindi um þau áhrif sem það hefur á umhverfið ef allir velja þann samgöngumáta sem er lengst til vinstri á myndinni, og gerði að umtalsefni áhrifin sem það hefði ef öll lönd heimsins myndu þróast í þá átt.

Auk okkar Sigrúnar Helgu Lund sem skipulögðum ráðstefnuna voru aðrir fyrirlesarar Ólafur Mathiesen arkitekt hjá Glámu-Kím, Bergur Ebbi Benediktsson lögfræðingur, skáld og tónlistarmaður og Páll Hjaltason formaður skipulagsráðs Reykjavíkur. Ólafur var með mjög áhugavert erindi um þróun borgarinnar í sögulegu samhengi, og hversu mikilvægt er að skipuleggja í sátt við fólkið í hverfum borgarinnar. Bergur Ebbi var með hálfgert stand-up; mjög fyndna og skemmtilega sjálfsskoðun um það hvernig Íslendingar hafa jafnan litið á Reykjavík, og hvað sú Reykjavík sem birtist hjá skáldunum er oft ólík þeirri Reykjavík sem við hin upplifum. Formaður skipulagsráðs sló botninn í málþingið með erindi um þorpin í borginni, og það hvað það er mikilvægt að almenningsrýmin okkar virki almennilega. Hann tók dæmi af hafnarsvæðum og torgum. Fyrirliggjandi er einmitt að hanna hafnarsvæðið í Reykjavík á næstu árum. Fundarstjóri á þessum frábæra fundi var Magnús Jensson arkitekt.

Það voru um 100 manns sem tóku þátt í verkefninu Myndum borg. 70 þeirra eru á myndinni á plakatinu en aðrir voru í ýmiskonar öðrum hlutverkum. En hér sjást fyrirsæturnar (þar sem þetta tók allan daginn, eru sumir bara á bílamyndinni, aðrir bara á strætómyndinni og enn aðrir komu seint og voru bara með á hjólamyndinni. Myndin hér er að neðan er bílamyndin):

Á myndinni sjást auðvitað ekki lykilmenn einsog Birgir Ísleifur Gunnarsson ljósmyndari, Óskar Axelsson kvikmyndatökumaður (myndband af uppákomunni kemur á netið á næstu dögum) eða aðrir þeir sem studdu verkefnið með myndarlegum hætti. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lánaði til dæmis körfubíl (sem fólkið er að horfa uppí), Strætó lánaði strætó, Melabúðin gaf kaffi og svo mætti áfram telja. Framtakið var algert grasrótarframtak sem naut góðs af hjálp þessara aðila, sem allir voru til í að leggja góðum málstað lið.

Annars voru það Samtök um bíllausan lífsstíl sem stóðu að uppákomunni með góðri hjálp Landssamtaka hjólreiðamanna. Það er ekki á neinn hallað þótt ég nefni sérstaklega Sigrúnu Helgu Lund, Pawel Bartoszek, Magnús Jensson og Morten Lange. Bestu þakkir til allra!