Annir og annir

Önninni er lokið hjá mér í Edinborgarháskóla, einkunnir komnar og allt gekk vonum framar. Ég er mjög feginn því þar sem ég gat ekki sinnt náminu alveg eins vel og ég vildi, vegna starfa minna í borgarstjórn sem tóku mikinn tíma. Bæði voru ferðalög heim nær aðra hverja viku og heilmikil vinna fyrir utan þau. Tvær nefndir sem ég var í unnu mikið á þessari önn: Annarsvegar nefnd um siðareglur borgarfulltrúa sem lauk störfum á dögunum og nefnd um lausn á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, sem ég stýrði og hægt er að lesa um hér að neðan.

Næsta önn verður snúnari í skólanum, meira álag og kúrsarnir taka á efni sem ég hef lítinn bakgrunn í, svo sem kenningar í arkitektúr. Leslistinn er mjög spennandi, en langur og krefjandi. Ferðalögin heim hafa líka tekið mikinn tíma og ég vil helst sleppa við að leggja þau á fjölskyldu mína aftur. Ég er þessvegna búinn að ákveða að taka mér launalaust leyfi á vorönninni. Ég verð á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir áramót, þar sem fjárhagsáætlunin verður afgreidd en fljótlega eftir hann fer fjölskyldan út aftur og verður fram á sumar.
Það er til marks um breytta tíma í þjóðmálunum að þegar ég komst inn í Edinborgarháskóla og sagði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og öðrum félögum mínum frá því, voru áhyggjur okkar þær að námið mitt myndi koma út einsog flótti væri brostinn í borgarstjórnarflokkinn. Ég segi einsog stundum er sagt: Ef aðeins það væru áhyggjur okkar núna. En eftir það sem á undan var gengið í borgarmálunum, vildum við ekki að fólk héldi að einhver fleygur væri í samstarfi okkar Hönnu Birnu og borgarstjórnarflokknum héldist ekki á sínu fólki. Okkur fannst því betra að ég myndi vera áfram einn af borgarfulltrúum okkar. Það hefur gengið vel upp, en nú langar mig að skipta um gír og einbeita mér að náminu.
Ég hlakka til að hella mér í námið af fullum krafti, þótt ég verði auðvitað með annað augað á þjóðmálunum heima. Ég verð líka vafalaust í miklu tengslum við Hönnu Birnu borgarstjóra, eins og ég hef verið hingað til. Það er síðan mikið tilhlökkunarefni að snúa til baka í borgarmálin í sumar, vonandi vel í stakk búinn til að takast á við áhugaverð verkefni borgarstjórnar á erfiðum tímum.