Útgjöld heimilanna

Útgjöld heimilanna eru meira áberandi nú eftir hrun en áður, sem eðlilegt er. Nýjasta rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna var birt á síðasta ári og byggir á stórri rannsókn sem gerð var á árunum 2006 til 2008.

Stærstu útgjaldaliðir heimilanna samkvæmt þeirri rannsókn eru þessir:

Húsnæði, hiti og rafmagn: 25,9% (hlutfall af öllum neysluútgjöldum heimilisins)

Ferðir og flutningar: 16,5%

Matur og drykkjarvörur: 12,9%

Stærsta liðinn er erfitt að minnka fyrir allt venjulegt fólk. Menn losa sig ekki svo auðveldlega við húsin sín núna, auk þess sem börn eru byrjuð í skólum í tilteknum hverfum og þrautin þyngri að finna annað húsnæði í því hverfi og svo framvegis. Ekki þarf að fjölyrða um hækkun Orkuveitunnar á hita og rafmagni, sem hækkar enn þessa tölu.

Liðinn „Ferðir og flutningar“ á hinsvegar að vera hægt að lækka, sérstaklega fyrir íbúa höfuðborgarinnar. Nær öll útgjöldin undir þessum lið fara í kaup og rekstur ökutækja eða 85% (pakkaferðir til útlanda eru undir öðrum lið). Það er í raun einkennilegt hversu lítið fer fyrir umræðu um það hvernig við getum lækkað þessi útgjöld. Kannski eru svörin of einföld: Taka strætó, hjóla, ganga, skipuleggja sameiginlegar bílaferðir í vinnu og svo framvegis.

Þetta er ein ástæða þess að ég og ýmsir fleiri viljum leggja aukna áherslu á að stytta vegalengdir í borginni, auðvelda fólki að hjóla á milli staða og halda áfram að bæta strætó sem samgöngukost. Það er óeðlilegt ástand í borg að allir þurfi að fara á bíl hvert sem þeir vilja komast. Það kostar heimilin í borginni ekki bara kaup og rekstur bíla, heldur þurfa þessi sömu heimili að borga hærra útsvar ef allir aka um á einkabílum. Það sér það hver maður að ef t.d. þriðjungur borgarbúa myndi hjóla til vinnu, væri kostnaður við samgöngumannvirki, viðhald gatna og svo framvegis miklu lægri. Að ekki sé minnst á svifryksmengun, hávaða og umferðaröryggismál. Til framtíðar á svo að sjálfsögðu að skipuleggja borgina þannig að byggðin sé þéttari, fleiri búi nálægt stærstu atvinnukjörnum og skólum og vegalengdir séu styttri.

Á meðan fjöldi fólks er tilbúinn til að ganga býsna langt til að lækka verð matarkörfunnar (jafnvel alla leið inn í Evrópusambandið – þótt óvíst sé hverju það skili), er undarlega lítil umræða um leiðir til að lækka þann lið sem étur upp meira af ráðstöfunartekjum heimilisins og er miklu einfaldara að lækka, hafi fólk áhuga á því.