Borgin mynduð

Þessi grein birtist í nýja blaðinu Fréttatímanum um síðustu helgi. Myndinni fylgdi plakatið sem ég hef birt hér á síðunni:
Borgin mynduð
Í sumar komu 100 Reykvíkingar saman til að gera tilraun, undir yfirskriftinni Myndum borg. Teknar voru ljósmyndir af þremur mismunandi útgáfum af Reykjavík: Bílaborginni, hjólaborginni og strætóborginni. Myndirnar sýna hvernig venjuleg gata í Reykjavík liti út ef allir ferðuðust með sama hætti um borgina.
Það er vitaskuld fjarlægur möguleiki að allir borgarbúar ferðist með strætó eða á reiðhjólum. Fyrir flestar borgir heims væri það einnig fjarlægur möguleiki að allir ferðuðust um á bílum, en í Reykjavík fer það býsna nærri raunveruleikanum; tæplega 80% borgarbúa hafa um árabil ekið einir í bíl á leið sinni til vinnu.
Bílaborg
Á myndunum sést vel hvaða áhrif það hefur á borgarumhverfið að fólk ferðist með þeim hætti um borgina. Göturnar fyllast af bílum og fyrir utan hinar augljósu umferðateppur, hefur það margvísleg áhrif á þá sem búa nærri þessum götum. Hávamengun er vaxandi vandamál í borginni og fjöldi borgarbúa gerir þá kröfu að dregið verði úr hávaða við húsin þeirra. Leiðirnar til þess eru annaðhvort mjög dýrar, eða leggja ýmsar kvaðir á bílstjórana, svo sem að þeir aki ekki á nöglum, aki hægar, eða aki alls ekki. Svifryksmengun er annar fylgifiskur þess að allir aki á bílum, eins og íbúar Hlíðahverfis þekkja vel. Nokkra daga á ári er ekki talið óhætt að senda börnin út að leika, vegna loftmengunar. Þá hafa rannsóknir við Háskóla Íslands sýnt fram á mikla fylgni milli notkunar astmalyfja og svifryksdaga í borginni. Að lokum má nefna þann augljósa mun sem er á viðhaldi gatna miðað við þessa þrjá ferðamáta. Með allan þann fjölda bíla á götunum sem sést á bílamyndinni, slitnar malbik ákaflega hratt, sem bakar Reykjavíkurborg mikinn kostnað. Rekstur og viðhald gatna í borginni kostar því um 2 milljarða króna á ári. Þann kostnað væri hægt að lækka með því að fleiri nýttu sér aðra samgöngukosti.
Kostnaður heimilanna
Sök sér ef það væri aðeins borgarsjóður sem kæmi illa út úr því að Reykjavík þróaðist út í bílaborg. En því miður koma heimilin í borginni líka illa útúr því. Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar eru ferðalög (aðallega kaup og rekstur bíla) næst stærsti útgjaldaliður heimilanna, stærri en matarkarfan. 16,5% af neysluútgjöldum heimilanna fer í það að koma fjölskyldunni á milli staða. Þessi tala gæti verið miklu lægri ef aðrir samgöngumátar, eins og hjólreiðar eða strætó, væru aðgengilegri og betri kostir, þannig að þeir sem vildu gætu valið þá. Að því er mikilvægt að vinna.