REI og Bjarni Ármanns

Það var mjög athyglisvert að heyra Bjarna Ármannsson lýsa því yfir í góðu Kastljósi í gær að hann gæti ekki annað en litið á þátttöku sína í REI sem mistök. Og hann lýsti því sérstaklega yfir að tilraunin til sameiningar REI og Geysis green energy hafi verið mistök. Þetta eru stórar fréttir og með ólíkindum að þessu skuli ekki hafa verið gerð betri skil í fjölmiðlum.

Bjarni var stjórnarformaður REI og átti að verða stjórnarformaður í sameinuðu félagi REI og GGE. Bjarni gekk til liðs við REI 11. september 2007 og á innan við 3 vikum hafði hann hagnast um hálfan milljarð af því gengið hafði rokið upp, skv þessari frétt Rúv.

Viku eftir að Bjarni var ráðinn til REI, var samkomulagið við GGE tilbúið. Í þeim viðræðum talaði Bjarni við þá fyrrverandi vinnuveitendur sína sem nýlega höfðu gert við hann starfslokasamninginn fræga, þ.e. Hannes Smárason og Jón Ásgeir Jóhannesson. Orkuveitan átti að setja 6-7 milljarða inn í fyrirtækið og skuldbinda sig til að eiga ekki viðskipti um virkjanir við aðra en þá félaga utan Íslands næstu 20 árin. Sem var hörmulegur samningur fyrir Orkuveituna.

Nokkrir stjórnmálamenn fögnuðu þessum makalausa samningi. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með þessum gjörningi sem Bjarni Ármannsson segir nú að hafi verið mistök. Eru borgarfulltrúar Samfylkingarinnar sammála því mati Bjarna? Ætli iðnaðarráðherra taki undir með honum? Ráðherrann sagði að það væri “viðskiptaleg snilld” að draga FL-group með þessum hætti inn í REI og með því væru búnir til 14-15 milljarðar “nánast úr loftinu”. Fróðlegt væri að heyra ráðherrann og Bjarna takast á um þetta.

Sjálfur varð ég fyrir verulegum vonbrigðum með framgöngu Bjarna í málum REI, ekki síst þegar ég fór náið ofan í saumana á því. Í viðtali við vefritið Deigluna sakaði hann okkur sem stöðvuðum málið um að hafa skaðað ímynd íslenskra orkufyrirtækja á alþjóðavettvangi. Vonandi áttar hann sig á því núna að aðrir hlutir en varfærni okkar hafa gert Íslandi meiri skaða og væri óskandi að fleiri hefðu sýnt aðgát.

Það hefur aldrei verið vafi í mínum huga á því að aðgerðir okkar sem stöðvuðum sameiningu REI og GGE voru réttar. Samfylkingin og Björn Ingi Hrafnsson studdu sameininguna heils hugar og Svandís Svavarsdóttir frá VG sat hjá, þótt mörgum finnist hún nú hafa verið á móti málinu. Tíminn hefur leitt í ljós hverjir höfðu rétt fyrir sér og það er ánægjulegt að jafnvel hörðustu stuðningsmenn málsins skuli nú átta sig á því.