Samfylkingin og Strætó

Í maí lofaði Samylkingin því að auka tíðni á leiðum Strætó, bæta þjónustuna og gera Strætó að alvöru valkosti.

Í júní myndaði Samfylkingin meirihluta með Besta flokknum og kynnti borgarbúum málefnasamning og lofaði þar að efla almenningssamgöngur „auka ferðatíðni og bæta leiðakerfi strætós.“

Í sama málefnasamningi var líka sagt að meirihlutinn ætlaði að nota vefinn www.betrireykjavik.is „til stuðnings við ákvarðanir og stefnumótun“. Á þeim vef eru hundruð tillagna, en fjórða vinsælasta tillagan með 1162 „Með“ og 34 „Móti“ er: „Auka tíðni strætóferða og laga leiðarkerfið“.

Í ljósi þessa hefur Samfylkingin ákveðið að veikja Strætó, draga úr ferðatíðni og laska leiðarkerfið. Og af því enginn vildi gangast við því í Borgarstjórn á þriðjudaginn að hafa tekið þá ákvörðun, lagði VG fram tillögu í borgarráði í morgun þar sem lagt var til að horfið yrði frá þessari ákvörðun. Sú tillaga var felld með atkvæðum Samylkingarinnar og Besta flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn og VG greiddu atkvæði með tillögunni.