Neysluviðmið

Það er ekki annað hægt en að taka undir með Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ, að neysluviðmiðin sem Velferðarráðuneytið kynnti í gær valda vonbrigðum. Það er ekki með góðu móti hægt að vita hvort þetta eru rauntölur um neyslu (sem væru þá gamlar fréttir, enda birti Hagstofan slíkar upplýsingar fyrir meira en ári) eða hvort í þessu felist skoðun ráðuneytisins á því hversu miklar ráðstöfunartekjur „fjölskyldan þarf til þess að geta verið eðlilegur þátttakandi í samfélaginu,“ eins og Gylfi orðar það. Tölurnar sem birtar voru í gær virðast eiga að vera hvorttveggja, eða hvorugt.

Margt er svo einkennilegt í reiknivélinni sem boðið er upp á á heimasíðu ráðuneytisins. Er það ekki einkennilegt að reiknivél fyrir neysluviðmið skuli ekki bjóða upp á þann valmöguleika að fólk eigi ekki bíl? Mér sýnist boðið upp á ýmsa aðra valmöguleika, sem skipta miklu minna máli þegar reynt er að finna út neysluviðmiðin. Sömuleiðis get ég ekki séð að spurt sé hvort sambýlisfólk eigi einn bíl eða tvo. En það er spurt hvort börnin borði skólamáltíðir!

Ég held það sé löngu kominn tími til að hið opinbera, og einstaklingar, átti sig á því að með því að skipuleggja borgina þannig að fleiri eigi þess kost að ganga, hjóla eða taka strætó til vinnu, hækkum við ráðstöfunartekjur fólks varanlega. Það er talsvert betra en smáskammtalækningar ríkisstjórnarinnar, sem meira og minna allar ganga útá að taka pening frá einum hópi og færa hann til annars.

Svo ætti það ekki að skemma fyrir að um leið og við hækkum ráðstöfunartekjur fólks með þéttri byggð nærri atvinnukjörnum, sköpum við öruggari og heilsusamlegri borg sem verður ódýrari í rekstri.