Hreinsun

Ég kláraði loksins að lesa bókina Hreinsun eftir Sofi Oksanen. Bókin er hreint frábær og situr enn í mér þótt ég sé kominn langt inn í næstu bók. Sögusviðið er Eistland, bæði á Sovéttímanum og eftir hann. Oksanen lýsir því vel hvernig kúgun fólks (aðallega kvenna) hefur í mörgum tilfellum haldið áfram eftir að sovétið leið undir lok, með þeim breytingum að kommisararnir heita nú mafíósar. Þótt sagan gerist aðallega í Eistlandi teygir hún sig til Berlínar og alla leið til Vladivostok (af því nú er Evróvision vika, má nefna að eftirlætishljómsveit einnar söguhetjunnar er Mumiy Troll frá Vladivostok sem tók þátt í keppninni fyrir hönd Rússa fyrir nokkrum árum).

Saga Eista er auðvitað stórmerkileg, og reyndar er ótrúlegt að Vestur-Evrópa skuli ekki hafa staðið betur við bakið á eistnesku þjóðinni á síðustu öld. Í bókinni spyr eistneskur bóndi í sífellu hvað dvelji Englendinga og Truman. Hvers vegna þeir koma ekki og frelsa þjóðina.

En ég held að við lesturinn hljóti allir Íslendingar að fyllast stolti yfir framgöngu Jóns Baldvins Hannibalssonar og Davíðs Oddssonar þegar þeir brugðust skjótt við og viðurkenndu sjálfstæði Eistlands og nágranna þeirra Lettlands og Litháens árið 1991. Það var mikilvæg táknræn yfirlýsing og Eistar hafa síðar sagt að frumkvæði Íslands og þor hafi flýtt fyrir sjálfstæðisferlinu, enda fylgdu aðrar þjóðir í kjölfarið.

Jafnframt áttar maður sig á því hversu fjarlæg hugsun það er að núverandi ríkisstjórn Íslands geri eitthvað viðlíka djarft og hugað. Enda þarf til þess innri styrk, sem hún hefur því miður ekki.

En ég mæli með Hreinsun sem sumarlesningu fyrir alla þá sem eiga hana eftir.