Skattar og kreppa

Ég tel afar mikilvægt að áfram sé forgangsraðað eins og við sjálfstæðismenn höfum gert að undanförnu í þeirri erfiðu stöðu sem uppi er í efnahagsmálum hér á landi. Kreppan hefur áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar eins og fyrirtækja og heimila í borginni. Okkar áherslur hafa verið að forgangsraða í þágu velferðarmála og barna. Mikilvægast af öllu er þó að skattar eru ekki hækkaðir.

Minnihlutinn hefur bent á að Reykjavík hefur „svigrúm til skattahækkanna“, og lagt til að það verði nýtt. Stefna meirihlutans er hinsvegar skýr: Við teljum að með hagræðingu og aðhaldsemi sé hægt að ná fram nægum sparnaði til að mæta því tekjutapi sem borgin verður fyrir vegna efnahagsástandsins. Við höfum velt við öllum steinum, skoðað hverja skúffu og farið yfir öll svið borgarinnar til að leita leiða til að spara og hagræða. Rétt eins og heimilin í borginni hafa verið að gera til þess að ná endum saman. Sú leið sem ríkisstjórnin er að fara að skattleggja almenning í stað hagræðingar í kerfinu er ekki rétta leiðin.

Það er mín skoðun að ef við förum þá leið bæði hjá ríki og borg eins og vinstrimenn virðast kjósa, að leggja auknar byrðar á herðar fólks og fyrirtækja, muni uppskeran verða rýr öllum til tjóns. Við verðum að reyna að standa vörð um kraftinn sem býr í fólkinu, hvetja það til frumkvöðlastarfsemi og verðmætasköpunar. Ef skattaumhverfið á Íslandi letur fólk til slíkra verka, sem flest eru unnin í höfuðborginni, verður hún ekki sú blómlega borg sem við sækjumst eftir að búa í.