Græn skref í Reykjavík

Af mínum verkum á þessu kjörtímabili er ég stoltastur af Grænu skrefunum. Í þeim fólst metnaðarfull áætlun um að gera borgina græna og auka þannig lífsgæði borgarbúa. Fólust skrefin annars vegar í auknu kynningar- og fræðslustarfi sem er mikilvægt fyrir framtíðaruppbyggingu grænnar borgar. Hins vegar að stíga raunveruleg græn skref í þessa átt.

Nemakortin í strætó skiluðu glæsilegum árangri og segja má að bylting hafi orðið í notkun strætó. Þá má nefna margföldun á lengd hjólreiðastíga um borgina, bílastæði fyrir vistvæna bíla, hreinsunarátak um alla borg, gróðursetningu yfir 300 þúsund trjáa og að Pósthússtrætið er gert að göngugötu á góðvirðisdögum. Um 90% af Grænu skrefunum sem til stóð að taka, hafa verið tekin. Grænu skrefin miða að því að borgin bjóði fólki upp á góða aðstöðu til að njóta borgarinnar og ferðast um hana á umhverfisvænan hátt. Langtímamarkmiðið er auðvitað að við sem búum í Reykjavík þessa áratugina, skilum borginni af okkur í jafn góðu eða betra ástandi en við tókum við henni í.

Nýlega ákvað Reykjavík að sækjast eftir því að verða Græna borgin í Evrópu. Það væri mikil viðurkenning fyrir okkar starf að fá þann titil. Reykjavíkurborg hefur á mörgum sviðum unnið brautryðjendastarf á sviði umhverfismála. Má þar t.a.m. nefna loftlags- og loftgæðastefnu borgarinnar. Frumkvæði borgarinnar hefur þó ekki síst birst í upplýsinga- og fræðslumálum. Borgin hefur m.a. verið brautryðjandi í umræðu um tengsl umhverfis og heilsu og um samgöngumál sem umhverfismál, en við upphaf þessa kjörtímabils voru umhverfis- og samgöngumálin sameinuð í einni nefnd. Borgin hefur ennfremur unnið af metnaði að því að fræða leik- og grunnskólabörn um náttúruna í borginni í gegnum Náttúruskóla Reykjavíkur. Þannig hafa reykvísk börn á skólaaldri kynnst Reykjavík sem grænni höfuðborg.

Ég er sannfærður um að Grænu skrefin verða Sjálfstæðisflokknum gott veganesti inn í kosningarnar í vor og að Reykjavíkurborg njóti þegar góðs af þeim skrefum sem stigin hafa verið. Betur má ef duga skal og með fleiri Grænum skrefum getum við aukið enn lífsgæði borgaranna.