Flugvöllur í Vatnsmýri

Flugvallarmálið er mikið hitamál, ekki bara í Reykjavík heldur um landið allt. Ég hef verið virkur þátttakandi í þessari umræðu um margra ára skeið. Ég tel mikilvægt að árétta nokkrar staðreyndir um þetta mál; mína afstöðu til þess, afstöðu borgarstjórnar og í hvaða farvegi málið er.

Þegar við sjálfstæðismenn mynduðum meirihluta með Framsóknarflokknum við upphaf þessa kjörtímabils var sagt í málefnasamningi að tekin yrði ákvörðun um framtíðarstaðsetningu flugvallarins á þessu kjörtímabili. Fullur vilji var til þess hjá báðum flokkum að skoða af alvöru aðra kosti. Ljóst var að ráðist yrði í gerð nýs aðalskipulags, á grunni þess sem samþykkt var árið 2002. Þar kemur fram að flugvöllurinn skuli víkja í áföngum, önnur brautin víki árið 2016 en hin árið 2024. Þetta er lögbundið skipulag sem borgarstjórn ber að sjálfsögðu að fylgja lögum samkvæmt.

Í borgarstjórn hafa oftar en einu sinni verið greidd atkvæði um tillögur Ólafs F. Magnússonar um að flugvöllurinn skuli festur í sessi í Vatnsmýri um aldur og ævi. Þær tillögur hafa jafnan verið felldar, eða þeim vísað frá, með 14 atkvæðum gegn 1.  Það segir sína sögu.

Skoðun mín á málinu er ekki róttækari en svo, að allir borgarfulltrúar nema einn eru sammála mér um að skoða skuli aðra mögulega staði fyrir flugvöllinn, auk þess sem gildandi aðalskipulag, sem fara ber eftir lögum samkvæmt, gerir ráð fyrir brottflutningi flugvallarins þegar fram líða stundir.

Íbúar á landsbyggðinni eru margir mjög andsnúnir þessari framtíðarsýn í gildandi skipulagi, og ég skil þeirra afstöðu. Þeir vilja umfram allt standa vörð um innanlandsflugið og þau lífsgæði (fyrir borgarbúa jafnt sem landsbyggðarfólk) sem felast í því hversu stutt er af flugvellinum í miðbæinn. Oft heyrist frá talsmönnum af landsbyggðinni að Reykvíkingar telji þetta sitt einkamál. Þetta er að sjálfsögðu ekki einkamál Reykvíkinga og mikilvægt er að borgarstjórn hafi frumkvæði að því að ná einhverri sátt um þetta mikilvæga mál. Við höfum tímann fyrir okkur og eigum að nýta tímann núna, þegar ekkert liggur á vegna offramboðs af húsnæði, til þess að taka ákvarðanir sem varða framtíðaruppbyggingu borgarinnar.

Spurningin um flugvöllinn snýst ekki bara um innanlandsflug og smekk manna fyrir byggð í Vatnsmýri. Hún snýst ekkert síður um önnur hverfi Reykjavíkur. Reykvíkingum mun fjölga um rúmlega 30 þúsund manns á næstu 40 árum.  Því þarf að svara núna hvar þetta fólk á að búa í framtíðinni. Ef lítil sem engin byggð bætist við í vesturhluta borgarinnar (Vatnsmýrinni, Örfirisey og meðfram ströndinni, svo dæmi séu tekin), liggur fyrir að megnið af þessum 30 þúsundum myndu búa austast í borginni, í Úlfarsfelli og á Geldinganesi. Það hefði mikil áhrif á önnur hverfi, bæði þau sem hingað til hafa verið austast og önnur vestari hverfi, svo sem Hlíðarnar. Byggist t.d. 25 þúsund manna byggð í Úlfarsfelli, eins og r-listinn skipulagði, munu íbúar þar keyra í gegnum Grafarvoginn til að komast að Sundabrautinni, á leið sinni í vinnuna. Það myndi verulega skerða lífsgæði fólks sem býr í Grafarvogi, og hefur barist hetjulega gegn því að Hallsvegur yrði hraðbraut sem klyfi hverfið í herðar niður. Íbúar Háaleitis og Hlíða þekkja það vel hvernig er að hafa hraðbraut í bakgarðinum. Tugir þúsunda bíla bruna þar í gegn á degi hverjum, og verða fleiri eftir því sem meira verður byggt austan Elliðaáa.

Mikilvægast af öllu er að sátt náist um þá leið sem farin verður í Vatnsmýrinni. Sú sátt þarf bæði að vera innan borgarinnar, en ekki síður milli borgar og landsbyggðar. Báðir aðilar þurfa að skilja sjónarmið hins, og kappkosta að finna leið sem er ásættanleg fyrir alla.