Námið í Edinborg

Haustið 2008 urðu talsverðar breytingar á mínum högum, þegar ég ákváð í samráði við fjölskyldu mína að dvelja einn vetur í Edinborg. Þar lagði ég stund á mastersnám við Edinborgarháskóla og lauk því sl. sumar með prófgráðuna MSc in the City (http://www.ace.ed.ac.uk/city/index.html), sem kalla má meistarapróf í Borgarfræðum.

Ég hef lengi haft brennandi áhuga á borgarmálum, sökkt mér ofan í þau verkefni sem mér hafa verið falin og talið mig vel heima á vettvangi borgarinnar. Hins vegar dýpkaði þekking mín á borgarmálum og skilningur á verkefnum borganna til mikilla muna í náminu. Borgarfræðin eru mjög spennandi. Þau sameina margskonar viðfangsefni borgarlífs, allt frá skipulagsmálum og arkitektúr yfir í hagfræði borga, hagkvæmni samgangna, húsnæðismála og þess sem þeir kalla „urban politics“. Mér finnst, eftir að ég kom aftur til starfa í borginni, að ég hafi eflst við að hafa öðlast meiri þekkingu á fræðasviðinu sem fjallar um borgarmál og hef verulega skerpt á minni framtíðarsýn fyrir Reykjavík. Vonandi nýtist ég betur sem borgarfulltrúi fyrir vikið.

Almennt var þessari ákvörðun minni vel tekið. Margir töldu að þetta myndi geta nýst vel í borgarstjórn. Oddviti okkar Sjálfstæðismanna vildi heldur að ég mætti áfram á fundi borgarstjórnar og kláraði tiltekin störf, en að ég tæki mér launalaust leyfi allan tímann, sem ég samþykkti. Þá 4 mánuði sem ég var borgarfulltrúi jafnframt því að sinna námi mínu, dvaldi ég viku og viku í Reykjavík til að sinna borgarfulltrúaskyldum mínum, sem ég tel að ég hafi gert mjög vel.

Nokkur gagnrýni var þó á þetta fyrirkomulag. Í ljósi þess þykir mér mikilvægt að koma nokkrum atriðum á framfæri.

Eins og fyrr segir var ákvörðunin um að gegna áfram stöðu borgarfulltrúa tekin í samráði við oddvita okkar Sjálfstæðismanna. Það var okkar skoðun að þessi ráðstöfun myndi ganga upp, þar sem ég sæti ekki í neinum launuðum nefndum, og gæti sótt fundi borgarstjórnar og sinnt skyldum borgarfulltrúa utan þeirra. Á þessum tíma sat ég t.d. í þremur ólaunuðum nefndum og stýrði starfi tveggja þeirra.

Þá sagði ég af mér í öllum fagráðum og launuðum nefndum borgarinnar þegar ég hóf námið, en ég hafði verið formaður í ýmsum ráðum og setið í öðrum. Ég var þó kosinn í 2. varaforseti borgarstjórnar og var það eina staðan sem ég gegndi auk þess að vera borgarfulltrúi.

Mikilvægt er að halda því til haga að þær greiðslur sem ég fékk frá borginni á þessum tíma voru fyrir vinnu sem ég raunverulega vann. Ég mætti vel á fundi á þessum tíma, betur en sumir þeir sem voru á Íslandi allan tímann og sinnti því sem mér var falið að sinna. Þar að auki kostaði ég miklu til að geta sinnt þessum störfum, með tíðum ferðalögum til og frá landinu, sem ég greiddi vitaskuld sjálfur. Borgarsjóður bar engan kostnað af námi mínu í Edinborg.