ÞETTA ER BORGARBLOG

Á þessari síðu fjalla flestar færslurnar um borgir og málefni þeirra. Þetta er borgarblog.

Við upphaf síðust aldar bjó 10% mannkyns í borgum. Árið 2007 var tímamótaár, því í fyrsta skipti í sögu heimsins bjuggu þá fleiri í borgum en í dreifbýli og árið 2050 er talið að 75% mannkyns muni búa í borgum. Í borgum verða 2/3 auðæfa heimsins til og þótt 5 af hverjum 10 íbúum veraldar búi ennþá utan borga, fæðast 9 af hverjum 10 hugmyndum sem fá einkaleyfaskráningu í borgum. Kreppan mun ekki breyta þessu. Miklu líklegra er að hún flýti enn þessari þróun. Það er mikilvægt á slíkum tímum að líta ekki bara til skamms tíma þótt mörg brýn viðfangsefni bíði. Heldur þarf núna að taka ákvarðanir þar sem horft er til lengri tíma, sem mótað geta líf okkar um aldur og ævi.

Á næstu 40 árum mun Reykvíkingum fjölga um 35 þúsund manns samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar. Þeir sem mótmæla byggð í Vatnsmýri og Örfirisey, eru að leggja til þetta fólk muni allt búa austan við þá byggð sem fyrir er í Reykjavík. Það mun kosta mikla peninga, mikla mengun og mikla umferðarhnúta, sem verða ekki aðeins slæmir fyrir þessa nýju íbúa borgarinnar, heldur ekki síður fyrir öll þau hverfi sem verða gegnumaksturshverfi. Peningum yrði sóað, sem með skynsamlegra skipulagi væri hægt að nýta til uppbyggilegri hluta. Kreppan mun vonandi kenna okkur að slík óráðsía er hluti af fortíðinni.

Krafa nýrrar kynslóðar borgarbarna verður að borgarumhverfið styrkist, byggðin þéttist og vegalendir styttist. Um leið verður þess krafist að strendur og önnur opin og græn svæði verði hrein og heilnæm. Sú krafa er ekki aðeins gerð í Reykjavík heldur í flestum vestrænum borgum sem glíma við sömu viðfangsefni og Reykjavík. Borgir í þeirri mynd sem við þekkjum þær verða heimili okkar næstu aldirnar, og það verður ærið verkefni að halda þeim skilvirkum, hagkvæmum og heilsusamlegum. Í borginni slær hjarta landsins og það er skylda þeirra sem starfa í borgarmálum að tryggja að það hjarta dæli blóði um borgina alla, og til allra landsmanna. Til þess þarf að vanda til verka og taka réttar ákvarðanir núna, því það sem við ákveðum nú og byggjum upp, hefur áhrif á líf Reykvíkinga löngu eftir að við sem nú lifum erum horfin af vettvangi.