Hvernig mætir borgarfulltrúinn í vinnuna?

Morgunblaðið birti á dögunum frétt um það hvernig borgarfulltrúar hefðu mætt í vinnuna á þessu kjörtímabili. Blaðið hafði þann háttinn á að telja aðeins heila fundi setna, þ.e. þá fundi sem borgarfulltrúar höfðu setið frá upphafi til enda. Samkvæmt þeirri talningu voru niðurstöðurnar þær að Hanna Birna hafði setið flesta fundi, eða 92% þeirra sem haldnir hafa verið á þessu kjörtímabili. Óskar Bergsson kemur næstur með 79% funda og ég er þriðji með 75% funda setna, jafn hátt hlutfall og Ólafur F. Magnússon. Þess ber að geta að fjórir borgarfulltrúar gerðu athugasemdir við þessa leið Morgunblaðsins og bentu á að menn gætu hafa mætt vel í borgarstjórn, þótt ekki hefðu allir fundir verið setnir frá upphafi til enda. Þetta er réttmæt athugasemd og líkast til eru flestir eða allir borgarfulltrúar með um eða yfir 90% mætingu þegar þannig er talið.

DV gerði einnig úttekt á mætingu borgarfulltrúa hér, en þegar sú úttekt var gerð (í maí 2008) höfðum við Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson næst bestu mætingu allra borgarfulltrúa á eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, eða 95% mætingu.

Frá því ég hóf nám í Edinborg í september 2008 hef ég aðeins forfallast á 4 fundum borgarstjórnar. Þá tel ég að sjálfsögðu ekki með þá fundi sem haldnir voru á meðan ég var í launalausu leyfi. Ég kom til baka úr leyfi sumarið 2009 þegar ég lauk námi mínu og fjölskyldan flutti aftur heim frá Edinborg. Síðan þá hef ég setið alla fundi borgarstjórnar frá upphafi til enda. Þá 4 mánuði sem ég var borgarfulltrúi jafnframt því að sinna námi mínu, dvaldi ég viku og viku í Reykjavík til að sinna borgarfulltrúaskyldum mínum, sem ég tel að ég hafi gert mjög vel. Ég sagði af mér í öllum fagráðum og launuðum nefndum borgarinnar þegar ég hóf námið, en ég hafði verið formaður í ýmsum ráðum og setið í öðrum. Ég var þó kosinn í 2. varaforseti borgarstjórnar og var það eina staðan sem ég gegndi auk þess að vera borgarfulltrúi. Allar ferðir og annan kostnað af námi mínu, greiddi ég að sjálfsögðu sjálfur og borgarstjórn bar engan kostnað af námsdvöl minni. Ákvörðunin um að gegna áfram stöðu borgarfulltrúa var tekin í samráði við oddvita okkar Sjálfstæðismanna. Það var okkar skoðun að þessi ráðstöfun myndi ganga upp, þar sem ég sæti ekki í neinum launuðum fagnefndum, og gæti sótt fundi borgarstjórnar og sinnt skyldum borgarfulltrúa utan þeirra. Á þessum tíma sat ég t.d. í þremur ólaunuðum nefndum og stýrði starfi tveggja þeirra.