Hjólafólk líka svikið

Mörgum er í fersku minni hvernig meirihlutinn í Reykjavík skerti þjónustu strætó verulega síðastliðinn vetur, þrátt fyrir áform um að „auka og bæta leiðarkerfi Strætó“.

Í sömu samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar var því einnig lofað að hjólreiðafólk myndi njóta forgangs í umerðinni. Eðlilegt var að þetta skyldi sett inn í samstarfssamninginn, enda hafði Samfylkingin þá nýverið tekið þátt í að semja og samþykkja hjólaáætlun fyrir Reykjavík, sem fékk heitið Hjólaborgin Reykjavík og ég skrifaði til dæmis um hér. Hjólreiðaáætlunin var samþykkt í janúar 2010 og í maí það sama ár samþykktu allir flokkar sérstaka aðgerðaáætlun, þar sem ákveðið var að leggja 10 km af hjólreiðastígum á árunum 2011, 2012 og 2013.

Á fundi umhverfis- og samgönguráðs í gær kom hinsvegar fram að aðeins verða lagðir 1,6 km af hjólastígum á þessu ári, eða 16% þess sem samþykkt hafði verið af öllum flokkum fyrir aðeins 13 mánuðum. Ef meirihlutinn heldur sama dampi í lagningu hjólastíga verða þetta því 4,8 km á þremur árum, en ekki 30 km á þremur árum, eins og til stóð. Af því tilefni bókuðum við Hildur Sverrisdóttir eftirfarandi:

Kúvending virðist hafa orðið á stefnu borgarinnar í uppbyggingu Reykjavíkur sem hjólaborgar, eftir að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins tók við völdum. Áætlun hans um lagningu 1,6 km af hjólastígum á þessu ári er blaut tuska í andlit þeirra sem hjóla og trúað hafa á uppbyggingu Reykjavíkur sem framúrskarandi hjólaborgar.

Fyrir liðlega ári samþykktu allir flokkar í borgarstjórn að árlega skyldi 10 km af hjólastígum bætt við kerfið, næstu 3 árin.

Að auki samþykkti öll borgarstjórn í janúar á síðasta ári hjólaáætlunina Hjólaborgin Reykjavík, þar sem gert er ráð fyrir fimmföldun hjólastíga á næstu 5 árum og tíföldun á næstu 10 árum. Gott hefði verið ef Samfylkingin hefði strax þá látið vita að hún ætlaði ekki að fylgja henni eftir.

Ávinningur borgarinnar af stórauknum hjólreiðum er öllum ljós, en hann birtist bæði í beinhörðum sparnaði, bættri heilsu borgarbúa og betri borgarmynd. Það gerist hinvegar ekki sjálfkrafa, og stjórnmálamenn þurfa að hafa kraft og þor til að forgangsraða í þágu þess sem mestu skiptir.

Það er gjörsamlega óskiljanlegt af hverju meirihlutinn í Reykjavík gengur svo freklega gegn yfirlýstum stefnumálum sínum. Ég veit að innan meirihlutans er fólk sem trúir í einlægni á nýjar lausnir í samgöngu og skipulagsmálum borgarinnar, en ekki verður annað séð en að það fólk hafi orðið undir og gamaldags hugmyndafræði um uppbyggingu borga hafi orðið ofaná. Það á því miður eftir að skila sér í meiri umferð, meiri mengun og þar með lakari lífsgæðum borgarbúa.