Ný ferðavenjukönnun

Ný ferðavenjukönnun fyrir höfuðborgarsvæðið var að koma út. Það eru talsverð tíðindi, enda var síðasta könnun gerð árið 2002. Það er gaman að sjá hvernig íbúar höfuðborgarsvæðisins fara ferða sinna. Ég var að fá könnunina í hendur, en í fljótu bragði sýnast mér þetta vera helstu punktarnir:

* Reykvíkingar ferðast með umhverfisvænni hætti en nágrannasveitarfélögin. Til dæmis fara 67% Seltirninga og Garðbæinga einir á bíl í sínar ferðir, en sem dæmi má nefna að í Miðborginni og Vesturbæ er hlutfallið 50%. Á sama hátt ganga menn og hjóla meira í vesturhluta Reykjavíkur en annarsstaðar.

* 3,8% allra ferða eru farnar á hjóli, en þessi tala var 0,8% árið 2002. Ef aðeins er tekin Reykjavík er talan 4,6%

* Nokkru fleiri eru með bílpróf nú (97%) en árið 2002 (93,7%).

* Í Miðborginni hafa 22% þátttakenda ekki bíl til umráða, sem er hæsta hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu. Hlíðarnar koma næstar með 18%, en fæstir eru í þessari stöðu á Seltjarnarnesi, eða 3%.

* 17% heimila í Miðborginni eiga ekki bíl. 13% í Hlíðum og 10% í Vesturbæ. 1% heimila í Garðabæ/Álftanesi eru án bíls.

* 21% heimila á Seltjarnarnesi eiga 3 bíla (***ATH. ég leiðrétti þetta, fyrst stóð 4 bílar, sem var innsláttarvilla)

* 15,5% íbúa í Reykjavík taka strætó tvisvar sinnum í viku eða oftar. Árbæingar og Vesturbæingar nota strætó mest (27% nota hann tvisvar í mánuði eða oftar), en íbúar Úlfarsfells, Breiðholts og Grafarvogs eru líka dyggir notendur.

* 21% Vesturbæinga segjast hjóla allt árið um kring. Næst hæsta hlutfallið er í Hlíðunum, 19%.

Að mínu mati er niðurstaða könnunarinnar skýr. Ef markmið yfirvalda er að draga úr mengun, umferðarslysum og öðrum fylgifiskum mikillar bílaumferðar og auðvelda fólki að ganga og hjóla til og frá vinnu, er alveg ljóst hvað þarf að gera: Reisa blandaða byggð nálægt helstu atvinnukjörnum höfuðborgarsvæðisins, þannig að fólk hafi meira val um ferðamáta. Við eigum ekki að reyna að þvinga fólk sem þegar er búið að koma sér fyrir á góðum stað í úthverfi, til að skipta um ferðamáta ef það hefur ekki áhuga á því. En Reykvíkingum mun fjölga um 25 þúsund manns á næstu 20 árum og könnunin sýnir að ef þeir munu búa nálægt atvinnukjörnunum (sem flestir eru vestan Kringlumýrarbrautar) eru þeir miklu líklegri til að velja fjölbreytilega ferðamáta. Helstu atvinnukjarnar höfuðborgarsvæðisins eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn, Miðborgin, Borgartúnið svo dæmi séu tekin.

Á alla þessa staði má komast gangandi á innan við 10 mínútum úr Vatnsmýrinni, og flestir eru innan 5 mínútna göngufjarlægðar.