Vanþekking ráðherra

Umræður voru á Alþingi í gær um framtíð innanlandsflugsins. Einar K. Guðfinnsson var málshefjandi og tóku nokkrir aðrir þingmenn til máls, meðal annars innanríkisráðherra. Allir þeir sem tóku til máls virtust sammála um að ríkið þyrfti að niðurgreiða innanlandsflugið meira en það gerir nú þegar.

Reykjavíkurflugvöllur kom einnig til tals og það kom lítið á óvart að landsbyggðarþingmennirnir vilja ekki blandaða byggð í Vatnsmýri, heldur flugvöll. En eitt kom verulega á óvart. Innanríkisráðherra kom upp um makalausa vanþekkingu með því að lýsa því yfir að ríkið ætti landið í Vatnsmýrinni. Orðrétt sagði hann:

Það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að þótt skipulagsvaldið sé hjá Reykjavíkurborg er eignarhaldið á flugvallarsvæðinu að uppistöðu til í eigu ríkisins. Ríkið á þetta svæði, ekki Reykjavíkurborg.

Þetta er auðvitað alrangt. Vatnsmýrin er rúmlega 150 hektarar og af þeim á ríkið aðeins tæpa 63 (það sem er innan rauða rammans). Gula svæðið hér að neðan er því borgarland (og að litlu leyti land einkaaðila).

Ríkið á því ekki einu sinni helming landsins í Vatnsmýrinni, og raunar fer hlutdeild ríkisins niður í þriðjung ef við tökum með jaðar Öskjuhlíðar, Valssvæðið, svæðið suðvestur af Háskóla Íslands (sem borgin og skólinn gera sérstakt samkomulag um) og friðland fuglanna í Vatnsmýrinni (efst á myndinni, vinstra megin við miðju).

Öllum má því vera ljóst að þegar norður-suður brautin verður lögð niður árið 2016, eins og gildandi aðalskipulag Reykjavíkur mælir fyrir um, getur Reykjavík þegar í stað farið að undirbúa framkvæmdir á tveimur mjög glæsilegum byggingarsvæðum. Ástæða er til að minna á að þegar ungt fólk í Reykjavík er spurt á hvaða nýbyggingarsvæðum það vilji helst búa, nefna flestir Vatnsmýrina og þannig hefur það verið um árabil. Það er ástæða til að hlusta á slíkar óskir núna þegar við erum að reyna að skapa hér aðstæður sem geta keppt við lífsgæðin í Ósló eða Kaupmannahöfn, þar sem fólk er meðal annars með hærri ráðstöfunartekjur af því það kemst af án bíls.

Það var þess vegna mikilvægt að innanríkisráðherra viðurkenndi með afgerandi hætti skipulagsrétt Reykjavíkur í Vatnsmýrinni, þótt hann hafi að vísu í sömu setningu komið upp um vanþekkingu sína á skipulagsmálum borgarinnar.