Lausnir á Landspítalalóðinni

Í stað þess að fara af stað með þá ofvöxnu uppbyggingu á Landspítalalóðinni sem meirihluti borgarstjórnar er nú að reyna að keyra í gegn, ættu borgarfulltrúar frekar að horfa til tveggja hugmynda sem hafa verið settar fram á undanförnum árum og henta svæðinu betur.

Eins og fram kom í pistli mínum í gær voru rekstrarráðgjafar og virtir arkitektar frá hinum Norðurlöndunum fengnir til að meta þörf spítalans á uppbyggingu, og gera uppdrætti að því hvernig hún gæti litið út. Í skýrslu starfsnefndar heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra sem kom út í janúar árið 2002 og heitir „Framtíðarskipulag og uppbygging Landspítala – háskólasjúkrahúss“ segir:

Dönsku ráðgjafarnir Ementor unnu að þróunaráætlun vegna starfsemi spítalans eða ‘Functional Development Plan’. Ementor var áður hluti af alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Ernst & Young og hafa starfsmenn þess unnið sem ráðgjafar heilbrigðisyfirvalda og Sjúkrahúss Reykjavíkur um árabil. Ementor lítur til næstu 20 ára og spáir fyrir um breytingar í þjónustunni, eftirspurn og meðferðarform og nauðsynlega aðlögun húsnæðis o.fl. Þeirra helsta niðurstaða er að aukin áhersla verði á dag- og göngudeildarstarfsemi og ennfremur sjúkrahótel. Þá segja ráðgjafarnir að spítalinn búi við húsnæðisskort og þurfi að hafa 120.000 m2 húsnæði á árinu 2020.

Nú eru um 73 þúsund fermetrar húsnæðis á Landspítalalóðinni, þannig að áætla mætti að 50 þúsund fermetrar til viðbótar myndu uppfylla þessa þörf. 120 þúsund fermetrar er talsvert annað en þeir 290 þúsund fermetrar sem er heildarbyggingarmagn í tillögunni sem nú er til kynningar á vegum meirihluta skipulagsráðs.

Sænska Arkitektastofan WHITE var líka fengin til ráðagerðar. Í áðurnefndri skýrslu segir um WHITE arkitekta:

Sænsku arkitektarnir WHITE í Gautaborg höfðu unnið með ríkisspítölum um nokkurt skeið að skipulagi lóðar spítalans við Hringbraut. WHITE arkitektar eru taldir einna fremstir á Norðurlöndum í skipulagningu sjúkrahúsa og hafa unnið við flest háskólasjúkrahús Svíþjóðar.

Sænska stofan skilaði tillögum um uppbyggingu á lóðinni við Hringbraut, og einnig hvernig uppbygging í Fossvogi og á Vífilstöðum gæti litið út. Hér er önnur tillaga þeirra að uppbyggingu við Hringbraut:

Eins og sjá má er megnið af uppbyggingu spítalans norðan gömlu Hringbrautarinnar, og sú gamla gata fær að halda sér. Þar með helst líka sjónásinn að aðalbyggingu Háskóla Íslands, sem hugsað var fyrir þegar Hringbrautin var lögð. Gamla spítalabyggingin nýtur sín líka vel í þessari hugmynd. Munurinn á þessari tillögu og þeirri sem nú er í kynningarferli á vegum meirihluta borgarstjórnar, er líka sú að norðursvæðið, umhverfis núverandi byggingar er miklu betur nýtt. Hringbrautinni er haldið óbreyttri og suðursvæðið skilið eftir fyrir háskólauppbyggingu.

Svipaðar hugmyndir hefur Páll Torfi Önundarson læknir og prófessor kynnt. Hans hugmyndir hafa fengið verðskuldaða athygli, enda þekkir hann vel til á Landspítalanum og raunar sjúkrahúsum vestanhafs og austan einnig. Hann hefur lagt á það áherslu að lausn til næstu 20-30 ára geti falist í því að byggja umhverfis núverandi byggingar á norðursvæðinu, ekki ósvipað því sem WHITE arkitektarnir lögðu til:

Þessar tvær hugmyndir hafa vitaskuld ekki fengið þá yfirlegu og vinnu sem deiliskipulagstillögurnar sem nú eru í kynningu, hafa fengið. Þær eru grófar hugmyndir um það sem við gætum gert á þessum reit ef við viljum fara örlítið hægar í sakirnar, taka uppbygginguna í smærri skrefum og hugsa um gæðin sem felast í því sem við þegar eigum; húsum, götum og borgarmynd. Að mínu mati þarf meirihluti skipulagsráðs að svara því hvers vegna hugmyndir af þessum toga henta ver en risa-uppbyggingin sem fyrirhuguð er.