Úrbætur við Ánanaust

Nokkur umræða hefur skapast um ofsaakstur í Ánanaustum, Grandatorgi og nágrenni. Sláandi myndband var sett á netið sem sýndi glæfraakstur á þessu svæði, enda aðstæður til hraðaksturs þarna einstaklega góðar.

Þetta er myndbandið:

Og hér er frétt Mbl.is um málið.

Af þessu tilefni fluttum við Hildur Sverrisdóttir tillögu í umhverfis- og samgönguráði í gær sem hljómar svona:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði leggja til að farið verði í nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr hraðakstri í Ánanaustum, Grandatorgi, Hólmaslóð, Mýrargötu og nágrenni. Göturnar á þessu svæði eru mjög breiðar, aðgengi gangandi mjög slæmt og umhverfi fyrir fallegt borgarlíf ekki til staðar. Þessu er hægt að breyta og mikilvægasti þátturinn er að draga úr ofsaakstri bíla á svæðinu. Samgöngustjóra verði falið að leggja tillögur til úrbóta fyrir ráðið sem fyrst.

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og ég nota tækifærið til að hrósa félögum mínum í meirihlutanum fyrir að láta það ekki þvælast fyrir sér hvaðan málin koma. Stjórnmálamenn eiga að styðja góð mál hvaðan sem þau koma og vera á móti vondum málum, sama hvaðan þau koma.

Vonandi getur ráðið samþykkt aðgerðir til úrbóta strax á næsta fundi, jafnvel þótt þær verði til bráðabirgða. Á sama tíma þarf að byrja strax að vinna að breytingum á skipulagi þarna, svo búa megi til betra borgarumhverfi á svæðinu. Þeim fjölgar stöðugt sem fara gangandi um þetta svæði á leiðinni í þá sívaxandi og skemmtilegu þjónustu sem boðið er upp á úti í Örfirisey.