Ósabraut og göngu/hjólabrýr

Í gær voru kynntar sigurtillögur í samkeppni um hönnun á göngu- og hjólabrúm yfir Elliðaárósa. Hlutskörpust var tillaga teiknistofunnar Traðar, en nánar má lesa um þá tillögu og aðrar sem fengu verðlaun hér. Tillaga Traðar gerir ráð fyrir tveimur myndarlegum mannvirkjum, yfir báða strauma Elliðaárinnar við Geirsnef. Þetta sést ágætlega á tölvugerðri mynd:

Þessi göngu- og hjólastígur mun stytta vegalengdina frá Grafarvogi í miðbæinn um tæpan kílómetra og án vafa fjölga enn þeim sem ganga og hjóla í og úr vinnu. Brýrnar munu einnig gera Geirsnefið aðgengilegra sem útivistarsvæði, bæði fyrir íbúa Grafarvogs og Vogahverfis.

Sjálfur er ég ótrúlega stoltur af því að þetta frábæra verkefni sé loksins að verða að veruleika. Þegar ég setti þá hugmynd fram fyrir 4 árum að Ósabrautin, sem þarna liggur samkvæmt aðalskipulagi, ætti aðeins að vera fyrir gangandi og hjólandi, þótti ýmsum það full langt gengið. Þessi skoðun mín rataði á forsíðu Morgunblaðsins:

Í fréttinni segir að lagt sé upp með að næsta „risaskref“ í Grænu skrefunum verði að breyta Reykjavík í hjólaborg og fjölga hjólreiðamönnum. Þar segir: „Þannig vill hann að samhliða Sundagöngum verði ráðist í Ósabraut, en hún verði hugsuð fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk.“ Og svo að ég beiti því gamla trixi að vitna í sjálfan mig, þá segi ég í blaðinu: „Ég held að hraðbraut [fyrir bíla] yfir þessa fallegu ósa sé barn síns tíma … Við höfum hinsvegar tækifæri þarna til að bæta lífsgæði íbúanna og sendum skilaboð um það hvernig við viljum þróa samgöngur í borginni“

Næsta skref í málinu var að setja hjólaleiðina inn á hjólreiðaáætlunina, Hjólaborgin Reykjavík. (Hægt að lesa um hana hér og skoða hana í heild hér). Í þeirri áætlun var legu stígsins breytt nokkuð, og tillögurnar sem kynntar voru í dag ganga út frá þeirri nýju legu.

Á kortinu með fréttinni í Morgunblaðinu sést vel hvernig Ósabrautin átti að liggja samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur, sem enn er í gildi en verið er að breyta. Þetta átti að vera klassísk tengibraut með mikilli og hraðri bílaumferð.

Nú er semsagt ljóst að það verður ekki, heldur verður þarna hið glæsilega mannvirki sem sést á myndinni efst og enn eitt mikilvægt skref er stigið í þá átt að gera Reykjavík fallegri, öruggari og betri borg til að búa í. Það er ekki á hverjum degi sem við sem berjumst fyrir hugsjónum okkar í borgarmálum fáum tækifæri til að sjá þær verða að veruleika. En dagurinn í gær var einn af þeim dögum og ég ætla að trúa Framkvæmda- og eignasviði borgarinnar þegar það segir að hjólandi og gangandi vegfarendur verði farnir að streyma þarna yfir ekki seinna en næsta vor.