Skipulagsmál eru efnahagsmál

Ég hef lengi bent á að gott skipulag getur haft verulega jákvæð áhrif á efnahag fjölskyldnanna í borginni. Ferðatími skiptir þar mestu máli, en þúsundir Reykvíkinga þurfa að ferðast í 30-40 mínútur til og frá vinnu á hverjum degi. Flestar þær ferðir eru farnar í bíl, sem kostar mikla peninga.

Heimilin í borginni eyða meira í ferðir á bílnum sínum, en í matarinnkaup. Fyrir einstakling sem býr fjarri vinnustað sínum eða skóla, er meðalkostnaður vegna ferða hátt í þriðjungur ráðstöfunartekna. Þetta hlutfall er miklu lægra í borgunum í kringum okkur, og það er ekki óalgengt að einstaklingar noti innan við 10% ráðstöfunartekna sinna í ferðir. Ástæðan er fyrst og fremst sú að borgir bjóða upp á fjölbreytilegri ferðamáta í formi hjólastíga og almenningssamgangna, en líka sú að framboð íbúða miðsvæðis er meira.

Með því að þétta byggðina, byggja á gömlum iðnaðarsvæðum innan byggðarinnar (Ártúnshöfðinn, Skeifan, hafnarsvæðið og Vatnsmýrin duga okkur til dæmis sem byggingaland næstu áratugina) bjóðum við fleirum upp á það að hafa meiri pening milli handanna, með því að lækka ferðakostnað sinn. Þeir sem hafa það betra fjárhagslega, munu áfram geta valið sér fallegt einbýlishús í úthverfi, enda býr Reykjavík ákaflega vel í þeim efnum; með hátt hlutfall sérbýlis og bestu úthverfi sem ég hef séð.

Ég var í viðtali um þetta alltsaman í þættinum Klinkið á visi.is. Hér að neðan er hlekkur á þennan þátt:

http://www.visir.is/section/MEDIA99&katid=3&subkatid=138