Óskastígar

Eitt af því sem ég er að læra hérna í náminu mínu, er munurinn á því sem skipulagt er í borgum og hinu sem gerist í frjálsu vali einstaklinga. Einn af kúrsunum mínum á þessari önn heitir ‘Readings in Contemporary Architectural Theory’ þar við tökumst á við helstu umræðuefnin í arkitektúr síðustu áratugina. Þessi togstreita milli skipulagsins og óskipulagsins er meðal þess sem við ræðum þar.

Sem frægt er héldu módernistarnir að hægt væri að skipuleggja allt líf okkar mannanna, niður í minnstu smáatriði. Þeir sáu húsin sem vélar fyrir daglegt líf okkar. Nýtistefnan eða fúnksjónalisminn var haldin þeirri villu að einstaklingarnir myndu haga sér nákvæmlega eins og arkitektarnir sáu fyrir sér. Það var auðvitað ekki svo, og við andlát módernismans kom út mikið flóð af bókum sem upphóf frjálst val einstaklinganna og hvatti beinlínis til þess að menn brytu reglurnar. Enda eru dæmin um hús sem virka vel með nýtt hlutverk fjölmörg: Stjórnarráðið okkar var fangelsi og Listasafn Reykjavíkur er í Hafnarhúsinu. Þá hefur Alliance húsið í umsjón Saltfélagsins verið lifandi miðstöð fyrir listamenn og glæsilega hönnun, þar sem áður var saltaður fiskur. Ekkert af þessu sáu arkitektarnir fyrir sér.

Skemmtilegt og skýrt dæmi um þessa hugsun birtist í því sem kallað hefur verið Desire Paths eða Óskastígar. Arkitektarnir sjá fyrir sér að fólk muni fylgja þeim stígum sem þeir leggja, en fólkið lætur ekkert segja sér hvernig það labbar. Það fer þá leið sem því sýnist skynsamlegust. Ég held að hagfræðingar og stjórnmálamenn geti lært margt af þessu. Ég á því miður engar myndir af svona stígum í Reykjavík, en þeir eru útum alla borg. En þessar myndir lýsa því sem við er átt:

Photo:GeorgieR