Svona fólk vil ég á þing

Nú styttist í prófkjörið hjá okkur Sjálfstæðismönnum í Reykjavík. Ég hef verið að pæla í því hverja ég ætla að kjósa, og margir góðir eru í boði. Það skiptir máli að gott fólk skipi þennan lista og leiði uppbyggingu landsins eftir bankahrun og vonda vinstristjórn. Ég ákvað að leggja línurnar fyrir sjálfan mig til að gera mér valið auðveldara. Ég skelli þessu hingað á síðuna mína að gamni mínu, ekki í þeim tilgangi að segja öðrum hvernig þeir eiga að kjósa. En svona ætla ég að gera það.

Ég ætla bara að kjósa fólk sem hefur sett fram einhverjar hugmyndir um það hvernig það ætlar að gera Ísland betra og hefur framtíðarsýn fyrir landið.
Ég ætla að kjósa fólk sem mun lækka skatta.
Ég ætla að kjósa fólk sem mun draga verulega úr eyðslu ríkisins.
Ég ætla að kjósa fólk sem á erindi á þing og ég treysti óháð kyni. Að þessu sinni eru það 4 konur og 4 karlar.
Ég ætla að kjósa fólk beggja vegna meðalaldurs þjóðarnnar sem er um 36 ár.
Ég ætla að kjósa umburðarlynt, víðsýnt og fordómalaust fólk, en sneiða hjá dómhörðu, þröngsýnu og fordómafullu fólki.
Ég ætla að kjósa þá sem eru tilbúnir að vinna með öðrum vönduðum þingmönnum að málum sem gera Ísland betra.
Ég ætla að kjósa þá sem munu styðja góð mál, sama úr hvaða flokki þau koma, og mótmæla vondum málum, sama hvaðan þau koma.
Ég ætla að kjósa þá sem standa með sterkri Reykjavík, en láta ekki undan þrýstingi kjördæmapotara sem hafa horn í síðu hennar.
Ég ætla að kjósa fólk sem er hugmyndafræðilega nógu sterkt á svellinu til að geta metið ný og óvænt mál á forsendum einstaklingsfrelsis en þarf ekki að reiða sig á gamlar kreddur.
Ég ætla að kjósa fólk sem hefur ástríðufullan áhuga á því að gera Ísland betra og er ekki í stjórnmálum út af völdum og vegtyllum.