Vandamál borganna leyst á Velo-City

Í síðustu viku var ég á hjólaráðstefnunni Velo-City, sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Þátttakendur eru um 1400. Ráðstefnan er haldin árlega, en nú var í fyrsta skipti fulltrúa Reykjavíkur boðið að halda erindi og það kom í minn hlut.

Ég hélt 20 mínútna erindi ásamt tveimur öðrum fyrirlesurum frá borgum sem sýnt hafa áhugaverðan árangur í hjólamálum. Við vorum kynnt undir yfirskriftinni: Nýjar hjólaborgir.

Ég lagði mesta áherslu á þann viðsnúning sem orðið hefði í Reykjavík á skömmum tíma. Til grundvallar lagði ég umfangsmestu kannanir sem við eigum á ferðavenjum borgarbúa, en þær voru gerðar með 10 ára millibili með nákvæmlega sömu aðferðafræði. Þetta var niðurstaðan:

Þótt mörgum finnist 4,6% hlutdeild kannski ekki vera mikið, er þetta þó ótrúlega góður árangur og vakti mikla athygli á ráðstefnunni. Þessi tala er hlutdeild hjólaferða í öllum ferðum sem farnar eru. Engin bandarísk borg utan New York fer yfir 5% og fjölmargar evrópskar borgir eru á sama róli og við. En vissulega geta Reykvíkingar gert miklu betur, og eftir því sem hjólastígum fjölgar, byggðin þéttist, bensínverð hækkar og meðvitund fólks um lýðheilsu og mengun eykst þá mun hjólaferðum fjölga.

Ég var sérstaklega beðinn um að gera grein fyrir því hvaða áhrif efnahagshrunið hefði haft á hjólreiðar í Reykjavík. Mín niðurstaða var sú að þótt fólk hafi vissulega farið að spara bensínið meira eftir hrunið, hafi uppsveiflan í hjólreiðum verið byrjuð áður. Grænu skrefin voru kynnt árið 2007 og við byrjuðum á hjólaáætlun árið 2008. Eitt Grænu skrefanna var að ráðast skyldi í langstærsta hjólaverkefni í sögu borgarinnar, en það var hjólastígurinn frá Ægisíðu austur í Blesugróf/Elliðaárdal. Það er risastórt verkefni sem markaði algjör tímamót og lýkur í sumar. Ég tók ásamt fleirum mikinn slag fyrir það verkefni og er ákaflega stoltur af því. Önnur stór verkefni hafa fylgt í kjölfarið svo sem stígurinn meðfram Suðurlandsbraut, sem liggur frá Höfðahverfinu í austri, yfir nýjar brýr Elliðaárósa og niður að Hlemmi. Í sumar verða settir hjólastígar í Borgartúnið og gatan endurgerð. Löngu tímabær endurgerð Hverfisgötu hefst líka í sumar og hjólastígar settir meðfram götu, en í næstu götu við er einmitt fyrsti eiginlegi hjólastígurinn í borginni; kaflinn stutti á Laugaveginum milli Snorrabrautar og Barónsstígs sem var ansi einmanna þangað til 2007. Hann er rauða súlan á myndinni, sem sýnir sérstaka hjólastíga (göngu- og hjólastígar ekki teknir með).

Erindið var annars nokkuð ítarlegt og ég reyni sjálfsagt að flytja það hérna heima við tækifæri. Á eftir voru svo langar umræður, þar sem ýmsir sérfræðingar og áhugamenn spurðu mjög nákvæmra spurninga um smáatriði í hönnun hjólastíga og aðstæður hjólreiðafólks. Það var mjög skemmtilegt, en líka mjög nördalegt. Flestir sem höfðu bara ‘eðlilegan’ áhuga á hjólreiðum yfirgáfu salinn, áður en farið var út í mestu tækniatriðin.

Ég var í Íslandi í bítinu í morgun þar sem þessi mál voru til umræðu í smá spjalli. Það má heyra hér: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP19263