Það sem við viljum

Frumskylda stjórnmálamanna er að fylgja sannfæringu sinni. Engu að síður hljóta allir þeir sem starfa í stjórnmálum að hlusta eftir því hver skoðun fólks er á hinum og þessum málum. Þótt kosningar á 4ra ára fresti veiti nokkra leiðsögn um það í hvaða átt við viljum stefna, eru þær ekki mjög nákvæmar um einstök mál.

Þegar vinna við aðalskipulag Reykjavíkur stóð yfir reyndum við að meta það í hvernig borg fólk myndi vilja búa árið 2030, sem er lokaár skipulagsins. Haldnir voru samráðsfundir með íbúum borgarinnar, skoðanakannanir voru gerðar og nú þegar skipulagið fer í auglýsingu geta allir gert athugasemdir. Eftir sem áður erum það við stjórnmálamennirnir sem berum ábyrgð á skipulaginu og okkur ber skylda til að reyna að skipuleggja borg sem verður eftirsóknarvert að búa í, er heilnæm, falleg, skemmtileg og gefur öllum borgurunum frelsi til að haga lífi sínu eins og þeir helst vilja.

Það var þess vegna mjög ánægjulegt að fá í hendurnar viðamikla nýja könnun um hug okkar borgarbúa til framtíðarskipulags borgarinnar. 1421 Reykvíkingur var spurður 37 spurninga. Niðurstöðurnar voru mjög áhugaverðar. Ég tek tvö dæmi.

Þegar fólk var spurt: „Hver er helsti ókosturinn við þitt hverfi að þínu mati?“ svöruðu flestir  eða 33%: „Bílaumferð“. Þetta kemur vel heim og saman við eldri kannanir sem hafa sýnt vaxandi áhyggjur borgarbúa af mikilli bílaumferð. Í ljósi þessa svars er líka áhugavert að ýmsir eru enn að berjast fyrir því að hið opinbera eyði tugum milljarða í mjög vitlausar gatnaframkvæmdir í Reykjavík sem miða eingöngu að því að auka bílaumferð. Borgarbúar sjálfir vilja hinsvegar frekar að peningunum sé eytt í betri almenningssamgöngur og göngu- og hjólastíga. Þeir skilja að þannig fáum við líflegri borg, öruggari borg, minni mengun og betra heilsufar almennings. Vitanlega gefur þetta ríkisvaldinu ekki afsökun til að hlunnfara Reykjavík þegar kemur að úthlutun vegafjár eins og gert hefur verið undanfarin ár. En gatnaframkvæmdir eiga ekki að miða að því að hraða og auka bílaumferð, heldur að draga úr neikvæðum áhrifum hennar á mannlífið í borginni. Þannig getur til dæmis stokkur á Miklubrautinni fært íbúum Hlíðahverfis aukin lífsgæði en mislæg gatnamót við Skeiðarvog eru ógn við lífsgæðin í Vogahverfi. Sömuleiðis er sjálfsögð krafa að ríkið standi jafn mikinn straum af gatnagerð fyrir gangandi, hjólandi og strætó eins og fyrir bíla. En þannig hefur það ekki verið.

Önnur mjög áhugaverð niðurstaða fékkst þegar spurt var: „Hvers konar húsnæði vantar helst í borginni?“ 71% svöruðu að helst vantaði hæðir eða íbúðir í einhvers konar fjölbýlishúsum. Af þeim völdu flestir eða þriðjungur: „Hæðir í 2-3 hæða fjölbýlishúsum“. Næst flestir, 18%, sögðu: „Íbúðir í tví- eða þríbýli“ og einu prósentustigi færra sögðu: „Íbúðir í stærri fjölbýlishúsum“. 3% sögðu „Penthouseíbúðir“. Samtals 71%. Þetta er í hróplegu ósamræmi við kröfur þeirra sem vilja að Reykjavík keppi helst sem mest við sum nágrannasveitarfélögin um að bjóða ódýrt sérbýli í úthverfi. Reykjavík er ákaflega vel sett með úthverfin sín, sem ég fullyrði að séu bestu úthverfi heimi. Þeir sem vilja gott sérbýli í úthverfi, eiga ótrúlega marga góða kosti í Reykjavík. Þeim er enginn greiði gerður með því að byggja ný slík hverfi utan við núverandi byggð. Það eykur á umferðarvanda og gerir t.d. Grafarvog að gegnumaksturshverfi. Þeir borgarbúar sem kjósa hinsvegar að búa vestarlega í borginni, á hæð eða í íbúð eiga hinsvegar færri góða kosti. Við þurftum svo sem ekki þessa könnun til að sjá það. Fermetraverð er ekki síðri mælikvarði á þessa eftirspurn.

Vinna við Aðalskipulag Reykjavíkur til 2030 hófst árið 2006. Þá voru línurnar strax lagðar og eftir þeim hefur verið unnið síðan, lengst af undir forystu sjálfstæðismanna en alltaf í góðri sátt allra flokka. Það er mjög ánægjulegt að sjá nú könnun eftir könnun sem staðfestir að þessar meginlínur eru í takti við óskir borgarbúa um framtíðina. Áhersla á þéttingu byggðar, með aukinni þjónustu inni í hverfunum, styttri vegalengdum og þar með minni bílaumferð er jafn afgerandi meðal borgarbúa sjálfra og í þeirri tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur sem nú liggur fyrir.

Þessi grein birtist í DV í dag.