Dreifð byggð drap Detroit

Fréttirnar af gjaldþroti Detroit borgar komu mörgum á óvart. Ekki þó borgarfræðingum og áhugafólki um borgarmenningu. Hnignun þessarar gömlu og glæsilegu borgar hefur verið rannsökuð og skoðuð frá ótal sjónarhornum og margar rannsóknir hafa verið gerðar á ástæðum fallsins. Eitt af því sem flestir eru sammála um er að borgin hafi gert afdrifarík mistök í borgarskipulagi sínu.
Hagfræðingurinn Paul Krugman hefur undanfarna daga skrifað um Detroit í New York Times:

Sorgarsaga Detroit er ekki bara um hnignun iðnaðar, hún er um hnignun borgarmenningar. Dreifð byggð drap Detroit því borgin vanrækti borgarumhverfi sem stuðlar að nýsköpun.

Krugman segir að þar sem yfirvöld í Detroit hafi vanrækt miðborgina hafi störfin dreifst um alla borg. Hann segir að Pittsburg, sem lenti í sambærilegum hremmingum og Detroit á níunda áratuginum, hafi staðið kreppuna miklu betur af sér. Meirihluti starfa í Pittsburg sé nálægt miðkjarna, en innan við fjórðungur starfanna í Detroit sé staðsettur þar. Veruleg íbúafækkun varð einnig í miðborg Detroit, en Pittsburg hefur verið að byggjast upp á nýjan leik útfrá gamla miðbænum. Krugman vísar í væntanlega rannsókn þar sem kemur fram að félagslegur hreyfanleiki, þ.e.a.s. möguleiki manna til að færast uppávið í launum og samfélagsstöðu, er meiri í þéttri borgarbyggð en í dreifðri byggð.

20130725-145924.jpg

Saga Detroit er að þessu leyti engan vegin einstök. Fleiri borgir gætu farið sömu leið ef þær gá ekki að sér. Ennþá eru sömu öfl til staðar og leiddu Detroit til glötunar. Ennþá heimta slíkir verktakavinir fleiri úthverfi, dreifðari byggð, fleiri fokdýr og plássfrek umferðarmannvirki, meiri og hraðari bílaumferð sem leiðir af sér meiri mengun, lengri ferðir til og frá vinnu, röskun útivistarsvæða, minni hreyfingu barna og fullorðinna og almennt verra borgarumhverfi. En meira að segja núverandi stjórnvöld í Detroit vita að leiðin fram á við er þéttari borg, minni bílaumferð, styttri vegalengdir, betri útivistarsvæði, bætt lýðheilsa með aukinni hreyfingu í daglegu lífi og kröftugir atvinnukjarnar nærri íbúðarsvæðum.