Regnbogadagar

Eftir viku hefjast Hinsegin dagar í Reykjavík. Það er talsvert tilhlökkunarefni og hátíðahöldin ná hámarki með Gay Pride göngunni sem fyrir löngu er orðinn einn stærsti viðburðurinn á hátíðadagatali borgarinnar. Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér.

Reyndar er langt síðan Hinsegin dagar fóru að standa fyrir fleira en bara réttindi homma og lesbía. Þeir fagna líka hverskonar fjölbreytileika mannlífsins og þeirri staðreynd að allir eiga rétt á að fá að njóta sín í samfélagi okkar, jafnvel þótt þeir falli ekki inní hefðbundnar staðalímyndir.

Reykjavíkurborg gerir margt til að efla og styðja við þessa hátíð og hefur lengi gert. Lagaumhverfi hér á landi er líka með því framsæknasta sem gerist í heiminum í réttindamálum samkynhneigðra. Ég er stoltur af því að búa í borg sem fagnar fjölbreytileikanum með jafn afgerandi hætti og Reykjavík gerir. Við erum í fararbroddi í heiminum og eftir því er tekið.

Ein hugmynd að lokum. Getum við ekki breytt gangbrautunum okkar í regnbogabrautir á meðan hinsegin dagar standa yfir? Þetta hefur verið gert á nokkrum stöðum í heiminum og er líflegt og skemmtilegt. Ég hef ekki orðið var við að þetta mál hafi komið inn í borgarkerfið, en ég er viss um að slíkri umsókn yrði vel tekið.

Myndin hérna fyrir ofan er frá Sidney, en þar samþykktu borgaryfirvöld að mála þennan fína regnboga á götuna. Ríkisvaldið var hinsvegar alveg á móti þessari hugmynd og lét fjarlægja regnbogann. Frétt um málið má finna hér. En hérna er líka einfaldari útgáfa af þessu, sem máluð var á götur Tel Aviv fyrir Gay Pride þar.

Það er vika til stefnu og gaman væri að sjá lúnar gönguleiðir yfir götur breytast í fallega regnbogabrú.

(Það má líka geta þess að samkvæmt norrænni goðafræði var regnborginn einmitt brúin milli Ásgarðs og Miðgarðs og var kallaður Bifröst.)