Við erum öll borgarfulltrúar

Sumar ákvarðanir eru þannig að um leið og maður er búinn að taka þær, rennur upp fyrir manni hvað þær eru góðar. Þannig er með ákvörðun sem ég hef verið að brasa með síðustu daga, en er núna búinn að taka.

Ég ætla ekki að fara í prófkjör í Sjálfstæðisflokknum í haust og ég ætla ekki að taka þátt í kosningunum í vor, heldur ætla ég að hætta í borgarstjórn og fara á annan vettvang, sem þó er kannski ekki svo frábrugðinn. Ég mun byrja með nýjan sjónvarpsþátt á Rúv á sunnudagsmorgnum, þar sem uppbyggileg og jákvæð þjóðmálaumræða verður á dagskrá. Ég mun líka fá að gera fleiri skemmtilega þætti þegar fram líða stundir. Ég ætla að lesa og skrifa um borgir og borgarþróun. Svo ætla ég af öllum kröftum að reyna að njóta lífsins betur en ég hef gert að undanförnu.

Það er heilmikið álag að vera í stjórnmálum. Ég hélt alltaf að það hlyti að vera auðveldara ef ég vissi fyrir hvað ég stæði og hefði trú á mínum hugmyndum. Þá þyrfti ég ekki að vakna á hverjum morgni og gá til veðurs, í pólitískum skilningi. En staðreyndin er að sú harða sannfæring sem ég hef fyrir því hvað er rétt að gera í Reykjavík, getur verið til bölvaðra trafala.

Það er leiðinlegt að standa í stöðugum illdeilum, ekki síst við félaga og vini sem mér þykir vænt um. Það var því ekki erfitt að ákveða að stíga til hliðar og leyfa öðrum að eiga sviðið, í bili að minnsta kosti.

Breytingin er samt ekki svo mikil. Ég hef mína sannfæringu og mun halda henni á lofti hér og víðar, örugglega meira og oftar en ég hef gert að undanförnu.  Við eigum þúsundir borgarfulltrúa í öllum hverfum borgarinnar, sem ekki eru í borgarstjórn. Ég ætla að verða einn af þeim.

Þannig að ég lít ekki á þetta sem endi á neinu – heldur gleðilegt upphaf. Ég er ekki að fara neitt. Það er auðvelt að vera í sambandi við mig á Facebook og Twitter, eða vera í þeim góða hópi sem fær tölvupóst frá mér annað slagið. Hlakka til að heyra í ykkur.