Staðan í borginni

Í vikunni var sagt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn stærsti flokkurinn í borginni. Flokkurinn mælist nú með 27,5% fylgi, en Björt framtíð er með 25%.

Það sem mér finnst athyglisvert í þessu, og áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðismenn, er að flokkurinn er enn að tapa fylgi. Þrátt fyrir að Björt framtíð missi 9% frá síðustu könnun skilar ekkert af því sér til Sjálfstæðisflokksins.

Í sögulegu samhengi er þetta líka töluverð kreppa fyrir D-listann í borginni. Aðeins tvisar áður hefur flokkurinn farið niður fyrir 28% fylgi. Annarsvegar undir lokin á borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar og hinsvegar strax eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis kom út vorið 2010. Í bæði skiptin var flokkurinn milli 27% og 28%, rétt eins og núna.

Nú er engin augljós skýring, eins og í fyrri tilvikunum tveimur. Mín skoðun er sú að tilraunir borgarstjórnarflokksins til að spila harðari og tækifærissinnaðri stjórnarandstöðu í borginni, í stað þess að taka höndum saman um góð og mikilvæg mál fyrir borgarbúa, hugnist borgarbúum illa. Framan af þessu kjörtímabili reyndi borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins að ástunda þá frumlegu pólitík að styðja góð mál saman hvaðan þú kæmu og vera á móti vondum málum. Sá hráskinnaleikur að vera á móti öllu sem meirihlutinn segir, bara af því hann segir það, var lagður til hliðar og málefnin frekar látin ráða. Á þeim tíma mældist  flokkurinn með um og yfir 40% í könnunum. Þessi leið sætti nokkurri gagnrýni innan úr Sjálfstæðisflokknum og kallað var eftir harðari stjórnarandstöðu. Þeirri kröfu var að nokkru leyti svarað og í viðtölum var aukin harka og kraftmeiri stjórnarandstaða boðuð. Eftir því hefur verið unnið undanfarna mánuði, en það verður ekki annað sagt en að viðtökur borgarbúa við hinum nýja stíl séu heldur dauflegar.

Ég gerði línurit yfir fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni, en sem fyrr get ég ekki sett það hingað inn, þannig að ég setti það inn á Tumblr síðuna mína.

Svo nefni ég það líka að ég er með póstlista, sem allir geta skráð sig á með því að smella hér. Ég sendi fréttir og pælingar mínar til þess góða hóps sem hefur skráð sig inn á hann.