Athugasemd til Egils um REI

Egill Helgason skrifaði prýðilegan pistil um REI í vikunni undir yfirskriftinni Siðvillingar þar sem hann ber saman Enron málið og REI málið. Siðvillingarnir í REI málinu eru bæði stjórnendur fyrirtækisins en kannski enn frekar þeir stjórnmálamenn sem stóðu að því. Egill segir:

„Hér voru fjárglæframenn stöðvaðir þegar þeir voru komnir með hendurnar á orkuna.

Frægt er símasmáskeyti frá Jóni Ásgeiri til þáverandi formanns borgarráðs:

– Til hamingju, besti díll Íslandssögunnar, stóð þar.“

Ég sá færslu Egils frekar seint og skrifaði því síðastur inn í athugasemdakerfið, og leyfi mér að birta athugasemd mína hér:

„Sæll Egill.

Þetta er góður pistill hjá þér og margt gott sem lesendur þínir hafa skrifað hér. Raunar eru umræðurnar hérna með því besta sem sagt hefur verið um REI málið.

Ég var einn þeirra sem mótmælti því frá fyrstu mínútu að við settum REI í hendur útrásarvíkinganna. Ekkert okkar 6 sem gerðum það var hinsvegar í stjórn Orkuveitunnar. Þannig að þegar stjórn OR samþykkti samrunann daginn eftir hvítvínsfundinn fræga, þar sem við heyrðum fyrst af málinu, greiddi enginn atkvæði gegn því. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með því að afhenda auðmönnunum þessar eignir Orkuveitunnar. Enginn var á móti, því Svandís Svavarsdóttir sat hjá.

Við þetta sauð uppúr enda var okkur sem höfðum lýst eindreginni andstöðu við samrunann algerlega misboðið. Björn Ingi sagðist þá ekki getað unnið með okkur – hann hefði sterka sannfæringu fyrir þessu máli og yrði að fylgja henni. Hann gekk því til liðs við Samfylkinguna, sem hafði geinilega líka sannfæringu fyrir því að hið opinbera ætti að taka þátt í útrásinni með þessum hætti. Gleymum því ekki að rökin voru beinlínis þau að við myndum græða svo ævintýralega á þessu. Yrðum að vera með í útrásinni. (Best var þegar Steinunn Valdís sagði í Kastljósinu aðspurð hvort þetta væri ekki mikil áhætta, að Jón Ásgeir og Hannes Smárason væru nú varla að þessu nema þetta væri góður díll!)

Ég vil halda því til haga að Svandís reyndist á móti málinu á öllum stigum þess eftir Orkuveitufundinn. Við Hanna Birna sem störfuðum með henni í REI hópnum svokallaða, áttum við hana gott samstarf og augljóst var að samhljómur var á milli sjónarmiða okkar þriggja.

Framsókn hefur sagt að hún hafi haft sannfæringu fyrir því að þetta hafi verið gott mál, en Samfylkingin hefur aldrei viðurkennt að það hafi verið mistök að styðja það. Það hafa heldur ekki gert þeir fjölmörgu álitsgjafar úr öllum flokkum sem kölluðu okkur “skúrka ársins”, meðal annars í þætti þínum. Menn muna væntanlega að Össur Skarphéðinsson sagði að við hefðum orðið þess valdandi að Reykjavíkurborg tapaði “trilljörðum” af því hún óð ekki í útrásina með þessum hætti.

Fyrirgefðu langlokuna, en takk fyrir skrifin. Mér finnst við aldrei hafa fengið að njóta sannmælis fyrir afstöðu okkar, sem óskandi væri að fleiri hefðu tekið á þessum síðustu árum.
Gísli Marteinn.“

Við þetta má bæta að það er mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig höfuðpaurar REI málsins sem véluðu um það frá upphafi, hafa æ síðan staðið saman í opinberri umræðu þegar óþægilegar fréttir hafa borist um það hvernig vélað var um málið. Þá er hlægilegt að sjá Össur greyið halda áfram að hampa orkuútrásarvini sínum Birni Inga á blogginu sínu. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra þessara aðila að sannleikurinn komi ekki fram. En sem betur fer hafa ekki allir hagsmuni af samsæri þagnarinnar í þessu máli og við sem stóðum í fárinu miðju og höfuðpaurarnir gerðu að blórabögglum, fáum sífellt meiri upplýsingar um óhreinindin í málinu. Sú saga hefur ekki enn verið sögð.