Græn skref 2,0

Á fundi borgarstjórnar í gær var samþykkt framhald Grænna skrefa í Reykjavík. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis og samgönguráðs mælti fyrir nýju skrefunum sem miða að því að gera borgina enn grænni og fallegri, gera fólki auðveldara að nota rafmagns- eða twinbíla, fjölga forgangsakreinum Strætó og auka endurvinnslu, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er glæsilegt framhald Grænna skrefa, enda hefur yfir 90% þess sem samþykkt var í fyrstu Grænu skrefunum nú komist í framkvæmd. Þar má nefna Nemakortin í Strætó, hjólreiðastíga víða um borgina, bílastæði fyrir vistvæna bíla, mikið hreinsunarátak um alla borg, gróðursetningu yfir 200 þúsund trjáa og að Pósthússtrætið er gert að göngugötu á góðvirðisdögum. Allt miðar þetta að því að borgin bjóði fólki upp á góða aðstöðu til að njóta borgarinnar og ferðast um hana á umhverfisvænan hátt. Langtímamarkmið er auðvitað að við sem búum í Reykjavík þessa áratugina, skilum borginni af okkur í jafn góðu eða betra ástandi en við tókum við henni í.

Það skref sem vakið hefur einna mesta athygli, er tvímælalaust Miklu betri Strætó. Reykjavík ákvað að bjóða námsmönnum í borginni upp á Nemakort, sem veitir þeim ókeypis aðgang að Strætó. Hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ákváðu að gera slíkt hið sama fyrir sína nemendur. Nokkur áhætta var tekin þegar ákveðið var að fara í þetta verkefni, því áður hafði verið ráðist í kostnaðarsamar tilraunir til að fjölga farþegum í strætó. Ein slík var til dæmis gerð árið 2005 þegar leiðarkerfinu var umbylt og stofnleiðir látnar aka á 10 mínútna fresti á álagstímum. Kostnaðurinn sem fylgdi þeirri aðgerð hljóp á hundruðum milljóna króna en uppskeran var engin. Markmiðið hafði auðvitað verið að fjölga farþegum, en niðurstaðan varð sú að þeim fækkaði. Að lokum var horfið frá þessu nýja kerfi, enda brunnu peningarnir upp og Strætó er enn að glíma við þann fjárhagsvanda sem þarna skapaðist.

Námsmannaverkefnið fór hinsvegar fram úr öllum vonum, og kostaði minna en leiðarkerfistilraunin. Farþegum í strætó fjölgaði svo mjög að ítrekað þurfti að senda aukavagna til að anna eftirspurn, yfir 90% nemenda í framhalds- og háskólum sögðust ánægð með verkefnið og meirihluti þeirra sagði að ef ekki væri fyrir kortin, myndu þau fara á bíl í skólann. Ein mikilvægasta afleiðing þessa var að ímynd Strætó breyttist. Fólk varð jákvæðara fyrir almenningssamgöngum í borginni og ítrekað birtust jákvæðar fréttir af Strætó, sem höfðu ekki sést lengi.

Hugsunin á bak við Nemakortin hefur alltaf verið sú, að mikill sparnaður og ýmis annar ávinningur hlytist af því að námsmenn ferðuðust með Strætó í skólann, frekar en á bílum. Færri bílar á götunum þýðir minni fjárfestingar í umferðarmannvirkjum, lægri kostnaður við viðhald gatna, minni mengun og svifryk, minni hávaði frá umferð, færri árekstrar og greiðari leiðir fyrir þá fjölmörgu sem þurfa að komast um á bílum. Þær borgir sem bjóða upp á bestu samgöngurnar eiga það sameiginlegt að þar eru fleiri en einn samgöngumáti í notkun. Strætó, hjól og bíll eru allt samgöngumátar sem fólk nýtir sér, og við þurfum að skapa forsendur fyrir notkun allra þátta. Slíkt kerfi mun kosta skattgreiðendur minna en það sem stefndi í undir stjórn Samfylkingar og VG, þar sem strætisvagnar keyrðu tómir um göturnar og hjólreiðastígar þekktust ekki í borginni.

En þótt Nemakortin muni að lokum borga sig fyrir sveitarfélögin sem bjóða þau, eru fleiri sem hagnast. Háskólarnir og framhaldsskólarnir njóta góðs af því ef nemendur þeirra þurfa ekki í jafn miklum mæli á bílastæðum að halda. Í kringum skólana eru mikil bílastæðaflæmi, sem skólarnir standa straum af. Ef færri nemendur koma í skólann á bíl, er hægt að nýta þessi svæði með öðrum og skynsamlegri hætti, til uppbyggingar eða útivistar. Hvert bílastæði kringum t.d. Háskóla Íslands er nefnilega lítil lóð á besta stað í bænum og ekki víst að bílastæði sé besta leiðin til að nýta hana.

Við sem höfum unnið að Nemakortunum af hálfu Reykjavíkurborgar höfum því alltaf séð fyrir okkur að þau myndu þróast á þann hátt að aðrir hagsmunaaðilar kæmu til liðs við okkur. Bæði skólarnir, sem hafa lýst eindregnum vilja til að verkefnið haldi áfram, fyrirtæki sem vinna með námsmönnum og námsmennirnir sjálfir sem hafa frá upphafi tekið mikinn þátt í framleiðslu og dreifingu Nemakortanna, og borga í sumum tilfellum hóflegt gjald fyrir þau, t.d. ef þeir týna kortinu sínu. Þessi þróun gerist kannski ekki öll í einu en þarf að gerast í samráði við alla þessa aðila, ekki síst stúdentana sjálfa sem eiga mikinn þátt í því hve vel hefur tekist til með Nemakortin hingað til.

Nemakortin eru mikilvægur liður í jákvæðri og nauðsynlegri breytingu á borginni sem mun gagnast okkur öllum þegar fram í sækir. Það er því mikilvægt, ekki bara fyrir stúdenta heldur borgarbúa alla, að ekki komi rof í Grænu skrefin og að Nemakortið standi stúdentum áfram til boða.