Ljós í myrkrinu?

Kreppur breyta heiminum. Mjög ólíklegt er að vesturlönd muni á næstu árum byggja upp samfélag eins og það sem var á fyrstu árum 21. aldarinnar. Vonandi skila kreppuárin okkur heilbrigðu, umburðarlyndu og frjálsu samfélagi. Ég vona líka að mikilvæg mál eins og sjálfbærir lifnaðarhættir fái meiri athygli en áður og ýmislegt bendir til að svo verði. Barack Obama lofar til dæmis grænni uppbyggingu atvinnulífsins vestanhafs, David Cameron sem líklega verður næsti forsætisráðherra Bretlands er með mjög grænar áherslur og á meginlandi Evrópu hafa þessi mál verið tekin alvarlega lengi.

Við Íslendingar þurfum að gera verulegt átak í umhverfismálum. Sérstaklega eru samgöngumál hjá okkur í ólestri, þar sem bílum hefur fjölgað ótæpilega. Grænu skrefin í Reykjavík eru mikilvægasta tilraunin til að snúa þeirri þróun við.

Eitt mikilvægasta umhverfismálið okkar er umgengnin við hafið. Þar höfum við Íslendingar staðið okkur vel, sérstaklega hvað varðar nýtingu auðlindanna. Við höfum komið upp umhverfisvænu markaðskerfi sem tryggir hvorttveggja í senn: Ábatasaman rekstur sem veitir fjölda fólks atvinnu og vöxt og viðgang fiskistofnanna. Í þessu efni erum við undantekningin frá reglunni. Víðast hvar í heiminum er þessum þáttum lítill gaumur gefinn. Þetta er meðal þess sem fjallað er um í kvikmyndinni The end of the line sem fer nú sigurför um heiminn. Í myndinni fullyrða fræðimenn að ef ekkert verði að gert, verðum við búin að hreinsa fiskinn úr sjónum árið 2048.

Miðað við það sem ég hef lesið um myndina og séð í kynningarbrotum, er fögrum orðum farið um fiskveiðistjórnun Íslendinga í myndinni. Okkar kerfi er tekið sem dæmi um fyrirmyndarleið við fiskveiðistjórnun.

Sé það rétt sem gagnrýnendur segja, að þessi mynd verði jafn áhrifamikil og Inconvenient Truth eftir Al Gore, gæti verð á fiskafurðum okkar hækkað verulega þegar neytendur tækju að „kjósa með innkaupakörfunni“ og fúlsa við öðrum fiski en þeim sem veiddur er undir sjálfbærri fiskveiðistjórn. Það væri svo sannarlega ljós í myrkrinu.

Það er svo eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn Íslands að vilja rústa þessu fyrirmyndarkerfi, fyrst á heimavelli með fyrningarleiðinni og svo á útivelli með því að ganga í Evrópusambandið.