Afsökunarkrafa vegna afsökunarbeiðni

Jóhanna Sigurðardóttir baðst afsökunar í ræðustóli Alþingis í gær. Hún baðst að vísu ekki afsökunar á því að hafa viljað samþykkja Icesave „samninginn“ sem Svavar Gestsson kom með heim. Hún baðst heldur ekki afsökunar á því að verja nú hundruðum milljóna króna í að komast í Evrópusambandið (sem þjóðin vill ekki fara í), þegar blóðugur niðurskurður stendur yfir og fólk er að missa vinnuna. Og síst af öllu baðst hún afsökunar á eigin þætti í hruninu, en eins og samfylkingarfólk keppist við að gleyma, var hún ein af tólf sem hafði tekið að sér að stjórna ríkinu eftir kosningarnar vorið 2007. Hún er reyndar ein af þremur sem hefur stýrt þjóðarskútunni alla tíð síðan þá. Árangurinn geta allir séð.

Nei Jóhanna baðst afsökunar „fyrir hönd ríkisins og stjórnsýslunnar“ á „vanrækslu og andvaraleysi stjórnvalda“ í aðdraganda hrunsins. Fleiri orð voru eiginlega ekki höfð um það.

Það er gott þegar stjórnmálamenn biðjast afsökunar á misgjörðum sínum, ef hugur fylgir máli. Afsökunarbeiðni ein og sér er marklaus ef henni fylgir ekki iðrun og ásetningur um yfirbót. Afsökunarbeiðni Jóhönnu hafði hvorugt. Samfylkingin iðrast einskis, allra síst útrásardaðursins. Yfirbótin verður heldur ekki séð og flokkurinn verður æ ófyrirleitnari í afstöðu sinni til AGS og ESB. Afsökunarbeiðnin var eingöngu samfylkingarspuni, ætlaður til að auka fylgi flokksins. Jóhanna hefur ekki verið spunakona í sama mæli og annað samfylkingarfólk. Spuninn er henni óþjáll á vörum og ekki trúverðugur. En vonbrigði ræðuskrifaranna og spunameistaranna leyna sér ekki. Þeir eru vanir því að fjölmiðlar lepji gagnrýnislaust upp spunann og bregðast ókvæða við þegar breyting verður á því. Nú virðast Ríkisútvarpið og Morgunblaðið, sem þótti lítil frétt í afsökunarspunanum, eiga að biðjast afsökunar á því að hafa ekki gert afsökunarbeiðninni hærra undir höfði. Fyrir þann málflutning ætti einhver að biðja þjóðina afsökunar.