Nema hvað? Nemakortin misskilin.

Frá því að Reykjavík hóf tilraunina með Nemakortin fyrir rúmu ári, hefur reglulega komið upp misskilningur um þá hugsun sem býr að baki.

Fyrsta skrefið af tíu Grænum skrefum er „Miklu betri strætó“. Þar segir að frá og með haustinu 2007 fái reykvískir námsmenn frítt í strætó. Reykjavíkurborg vildi með öðrum orðum hvetja námsmenn sína til þess að nota strætó til að komast á milli staða, fremur en að kaupa sér bíl og auka þar með mengun og umferðarvanda á götunum. Ákvörðunin var tekin að vandlega athuguðu máli, og við studdumst meðal annars við könnun sem gerð hafði verið í Háskóla Íslands og sýndi að stór hluti námsmanna myndi taka strætó ef Nemakort væru innifalin í innritunargjöldunum í skólann.

Fyrirtækið Strætó, sem Reykjavík á með hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, tók ekki þessa ákvörðun. Málið þurfti ekki að koma fyrir stjórn þar með formlegum hætti, því Reykjavíkurborg ætlaði einfaldlega að borga fyrir sína stúdenta. Fljótlega kom í ljós áhugi hinna sveitarfélaganna á að vera með í þessu verkefni. Eitt af öðru ákváðu þau að borga fyrir sína nemendur, sem gerði verkefnið einfaldara. Við reiknuðum út hvert tekjutap Strætó bs. yrði af því að námsmenn þyrftu ekki að borga í vagnana og sveitarfélögin skiptu þeirri upphæð á milli sín í réttu hlufalli við fjölda námsmanna á hverjum stað. Þar sem öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru með í verkefninu, var ákveðið að allir námsmenn í háskólum og framhaldsskólum á svæðinu skyldu fá Nemakortin, jafnvel þótt þar leyndust einstaka nemendur frá sveitarfélögum á borð við Reykjanesbæ eða Þorlákshöfn sem ekki voru aðilar að Nemakortunum. Þeir nemendur voru free-riders, því þeirra sveitarfélög borguðu ekki krónu til verkefnisins. Skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu voru því í raun að kaupa fyrir þá Nemakort.

Nemakortin eru nú að hefja sitt annað ár, eftir ótrúlega góðan árangur af verkefninu í fyrra. Nú bregður hinsvegar svo við að Garðabær ætlar ekki að borga fyrir sína nemendur, sem verða þá auðvitað að gera það sjálfir. Gremja nemenda þar í bæ er skiljanleg. Hún má hinsvegar ekki beinast að Strætó bs., eða Reykjavík, því það er einfaldlega ákvörðun bæjarstjórnarinnar í Garðabæ að kaupa ekki Nemakortin handa sínu fólki. Sama gildir um nemendur af suðurnesjunum eða öðrum sveitarfélögum. Þeir fá auðvitað ekki Nemakortin nema bæjarstjórnirnar þar ákveði að vera með í verkefninu og greiða þá fyrir sitt fólk. Flokksráð Vinstri grænna ályktaði um helgina um að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu að láta nemendur gæta jafnræðis. Sérstaklega var tekið fram að Reykjavík væri höfuðborgin og að hún hefði því skyldum að gegna gagnvart þessum nemendum. Það var og. Finnst flokksráði Vinstri grænna kannski að Reykjavíkurborg ætti líka að borga fyrir börn þessara nemenda á leikskóla? Reykjavíkurborg býður sínu fólki upp á góða þjónustu, ýmiskonar niðurgreiðslu og afslætti, sem ekki er boðið upp á í öðrum sveitarfélögum. Nemakortin eru þess háttar þjónusta og það væri vægast sagt einkennilegt ef Reykjavík færi að splæsa á utanbæjarfólk í strætó. Það stendur ekki til.

Auk þess er rétt að geta þess að Reykjavíkurborg er ekki með þá stefnu að það eigi að vera frítt fyrir alla í strætó. Námsmannakortin eru ekki fyrsta skrefið í þá átt. Reykjavík er hinsvegar með þá stefnu að reyna að draga úr loftmengun í borginni, reyna að minnka umferðartafir og skapa skemmtilegt og mannvænlegt umhverfi. Það gerum við ekki síst með því að byggja upp góðar almenningssamgöngur. Nemakortin eru liður í því. Ég hef alltaf séð það verkefni þróast með þeim hætti að skólarnir sjálfir komi inn í það á næstu árum, greiði hluta af kortunum, enda græða þeir verulega á því að færri nemendur komi á bílum og hægt verði að nýta bílastæðaflæmin fyrir framan skólana til að byggja skólana upp.

Síðasta vetur skiluðu Nemakortin fjölgun farþega í Strætó sem nam milljón farþegum á ársgrundvelli. Vonandi næst enn betri árangur í vetur.