Minni hraði í hverfunum

Í gær mælti ég, ásamt Borgarstjóra, fyrir mikilvægri tillögu um að umferðahraði í hverfum borgarinnar verði minnkaður. Tillagan var samþykkt einróma.

Ástæða þess að við leggjum þessa tillögu fram núna, er að hröð bílaumferð er farin að standa hverfunum fyrir þrifum. Foreldrafélög og íþróttafélög hafa kvartað undan því að börn komist ekki sjálf leiðar sinnar innan hverfanna, vegna umferðar. Þetta gerir það að verkum að foreldrar bruna úr vinnu til að skutla börnunum sínum á milli skóla og tómstunda, sem þó eru innan sama hverfis. Þetta skutl eykur svo enn á umferðina, með þeim afleiðingum að ennþá færri treysta sér til að ganga.

Flest hverfin okkar eru hönnuð með það í huga að fólk geti gengið milli helstu stofnana hverfisins, án þess að þurfa að fara yfir miklar umferðaræðar. Með aukinni bílaeign urðu slys á gangandi vegfarendum hinsegar tíð og banaslys í nágrenni skóla voru því miður fastur liður í borgini fyrir nokkrum árum. Með tilkomu 30 km/klst hverfanna (í kringum 1995) lagaðist ástandið verulega og slysum fækkaði. Nokkrar götur og svæði eru þó eftir og markmiðið með tillögunni var að staðfesta þann vilja borgarstjórnar að hraðinn á þessum götum verði lækkaður, og gangandi vegfarendum verði gert auðveldara að komast leiðar sinnar.

Með þessu vona ég að auðveldara verði fyrir börn að komast í íþróttir eða aðrar tómstundir af eigin rammleik. Í nokkrum hverfum borgarinnar liggur fyrir sláandi tölfræði um íðrþróttaiðkun barna, þar sem sést að börn sem búa „öfugu megin“ við umferðaræðar með hraðri umferð, stunda íþróttir miklu síður en skólasystkyn þeirra hinumegin götunnar.

Við eigum að reyna að gera hverfin að sjálfbærum einingum, þannig að það sé auðvelt og ódýrt að lifa sínu daglega lífi þar. Við eigum að hlúa að þeirri starfsemi sem er í hverfunum og skapa aðstæður fyrir aukna þjónustu. Við þurfum líka að tryggja að aðgengi að almenningssamgöngum út úr hverfunum sé þægilegt, þannig að börn sem hafa náð þeim aldri að geta sjálf farið með strætó í lengri ferðalög, eigi auðvelt með það.

Markmiðið er auðvitað alltaf að skapa hreinni, skemmtilegri og lífvænlegri borg fyrir þá sem hér búa.